27. janúar 2011

Hjólavagninn


Nú er vagninn tilbúinn og búið að fara í fyrstu prufuferð.

Við settum fullt af drasli í töskuna sem samtals voru 13 kg að þyngt og tókum einn hring um hverfið. Hann virkaði vel, maður finnur aðeins fyrir þyngdinni og þegar farið er upp eða niður kanta þá kippir örlítið í, en ekkert sem getur talist óvenjulegt eða öðruvísi en búast mætti við.
Það var ekkert mál að beygja hvort sem ég fór frekar hratt í beygjuna eða hægt. Gat ekki fundið að hann væri að toga mig til hliðana. Svo ég er mjög bjartsýn á að hann nýtist vel.

Stefni á að hlaða endurvinnslupappir á hann í dag og hjóla niður í gám til að reyna hann frekar. Það er helst þegar hann er tómur sem maður þarf að gæta sín því hann vill skoppa, hann er það léttur.

21. janúar 2011

Nýr hjólavagn í smíðum


Hér er hann í fyrstu mátun við hjólið, eins og sést þá þarf að laga ýmislegt. Eins og t.d. að minnka bilið frá hjólinu að vagninum.
Síðan verður settur gatabotn í kerruna og stangir á hliðarnar til að halda farangrinum á sínum stað.
Dýrasti hlutinn hingað til sést ekki á myndinni en það er pinni sem gengur í gegnum miðjuna á afturhjólinu á hjólinu sjálfu, sem kerran húkkast svo uppá. En það verður mjög einfalt að tengja kerruna við hjólið og taka hana af aftur, eftir þörfum.

5. janúar 2011

Hjólafréttir - færð á stígum.


Það var heldur kalt í dag og færðin á stígnum við Sæbrautina þar sem hann liggur hvað næst sjónum var ekki góð. Í veðrinu í gær gusaðist sjór upp á stíginn og eftir sat slabb, klakahimna og steinvölur hér og þar. Slabbið var leiðinlegt yfirferðar og skrikaði hjólið helst til of mikið í því eins þar sem steinarnir voru var erfið yfirferð.
Ég sendi beiðni til Reykjavíkurborgar um að þetta væri hreinsað en fékk svör til baka að það væri ekki hægt fyrr en hitastigið færi upp fyrir frostmark. Því ákvað ég að hjóla aðra leið heim og mun ekki hjóla þessa leið meðan hún er í þessu ástandi.
Myndina tók ég á leiðinni heim í gær, en rokið vildi ekki leyfa mér að vera í friði og þess vegna er hún svona hreyfð.

2. janúar 2011

Hjólaárið 2010

Á árinu hjólaði ég samtals 2.760 km og var 165 klst og 46 mínútur að því. (Það eru 612 km meira en ég hjólaði árið 2009)

Þetta var gott hjólaár og rættust draumar um að hjóla lengri vegalengdir og að fara í dagshjólatúra með góðu fólki. Jafnframt því að það vakti upp nýja drauma um lengri ferðir og fleiri.
Við hjóluðum Hvalfjörðinn einn daginn í fínasta veðri. Og svo var skipulögð fjölskylduvænni ferð um Suðurnesin og þar vorum við næstum of heppin með veður þar sem sólin skein allan daginn og nokkrir voru sólbrenndir á eftir. En við ætlum okkur að endurtaka þann hring á árinu 2011.

Af einhverri ástæðu hef ég vanið mig á það að telja þá hjólreiðamenn sem ég sé á morgnana þegar ég hjóla til vinnu. Og af því tilefni ætla ég hér að setja inn upplýsingar um þær tölur. Talning á sér stað milli kl. 7:30 og 8:00 þá virka daga sem ég mæti til vinnu.
Mesti fjöldi hjólandi sem ég sá á einum morgni voru 64 þann 17. maí. Þá var átakið hjólað í vinnuna í hámarki og ég hjólaði um Fossvogsdalinn en þar eru alltaf mjög margir að hjóla a.m.k. á sumrin. Næst mest voru það 50 (svona til samanburðar).

Að meðaltali sá ég þetta marga hjólreiðamenn á morgnana hvern mánuð:
Janúar - 2 á dag
Febrúar - 2 á dag
Mars - 3 á dag
Apríl - 7 á dag
Maí - 17 á dag
Júní - 16 á dag
Júlí - 8 á dag (þá var ég sjálf í sumarfríi og greinilega fleiri líka)
Ágúst - 20 á dag
September - 7 á dag
Október - 6 á dag
Nóvember - 5 á dag
Desember - 2 á dag.

Bara í janúar, febrúar og desember komu dagar þar sem ég sá engann hjólreiðamann á leiðinni. Þeir voru ekki margir dagarnir sem ég sleppti að hjóla vegna veðurs, en þó einhverjir. Lengst var ég 35 mínútur í vinnuna en þá var snjór yfir öllu og ekki búið að moka stígana og ég þurfti að teyma hjólið þónokkuð því það var of þungt að hjóla. Fljótust var ég 14,36 mínútur. Það var 23. júní í góðum meðvindi.

Samtals hjólaði ég 219 daga af árinu og hef ég þá að meðaltali hjólað 12 km í hverri ferð. 146 daga hjólaði ég ekki neitt.

Ég var ekki eins dugleg að hlaupa á árinu. Hljóp ekki nema 35 km allt í allt (það eru 81 km minna en árið 2009), en takmarkið er að bæta það heilmikið á nýju ári. Og mun ég stefna á að hlaupa 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar.

Þessar upplýsingar get ég nálgast vegna þess að ég skrái allar mínar hjólaferðir og hlaup inn á síðuna http://www.hlaup.com/ og hún býður upp á og heldur utan um svona tölur fyrir mann. Með smá reikni kúnstum getur maður svo fundið út hitt og þetta í tengslum við það. Frábær síða að mínu mati.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...