28. febrúar 2006

Þriðjudagur

Jú í dag er lundin léttari. Gærdagurinn léttist líka með hverjum tímanum sem leið og það fór þannig að ég labbaði heim eftir vinnu. Veðrið var fallegt eins og það er í dag og hitastigið þannig að það hentaði vel til göngu.

Á eftir ætlar hún Eyrún mín að kíkja til mín í vinnuna og hjálpa til við skrifstofustörfin, það er jú vetrarfrí í skólanum. Ég hef enn ekki náð að nýta þessi vetrarfrí þeirra í eitthvað sniðugt og skemmtilegt. Man aldrei eftir að plana frí hjá mér í kringum þetta.

27. febrúar 2006

Mánudagur enn og aftur

Nema hvað að í dag er bolludagur - til hamingju með daginn bollur!!!

Og í gær át ég yfir mig af bollum og á enn fullan ísskáp af þeim... en ég kemst örugglega yfir það í dag og fæ mér fleiri í kvöld, thí hí.

Engar hjólafréttir í dag þar sem ég var of þreytt í morgun til að telja. Enda er ég frekar fúl út í allt þetta fólk sem hefur hjólin heima hjá sér yfir vetrarmánuðina svona bara ef verðrið skildi nú vera gott. Og ég hef ekki látið verða af því að sækja hjólið mitt til að taka þátt í þessum vetrar (en þó vorveðurs) hjólreiðum. Mér líður þó örlítið betur með þetta í dag þar sem það hefur kólnað og ísing var yfir vegum og gangstígum í morgun.

jamm og já og svo er nú það. Mánudagur enn og aftur.

26. febrúar 2006

Að setja inn myndir á bloggið

Fyrst er smellt á myndatáknið.


Og þá kemur upp þessi mynd:
Hér er smelllt á "Browse" takkann og ein mynd sótt í einu. Ef þú ætlar að setja fleiri en eina mynd inn í einu þá er smellt á "add another image" og við það kemur upp ný lína.

Og þá er komið að því að færa myndirnar inn á bloggið með því að smella á "Upload image"

Þetta getur tekið svolítinn tíma svo það er um að gera að vera þolinmóður.

23. febrúar 2006

Gagnrýni á tónleikana í mogganum

Samfelld unaðsstund

TÓNLIST Hallgrímskirkja Frönsk og íslenzk verk fyrir kór a cappella eftir Þorkel Sigurbjörnsson, Hildigunni Rúnarsdóttur, Debussy, Báru Grímsdóttur og Poulenc. Kór Áskirkju og Hljómeyki. Stjórnandi: Kári Þormar. Sunnudaginn 19. febrúar. Kórtónleikar Ríkarður Ö. Pálsson LISTVINAFÉLAG Hallgrímskirkju efndi til kórtónleika án undirleiks á sunnudag, er voru að vanda vel sóttir. Fór hvort tveggja saman forvitnilegt viðfangsefni og vænlegir flytjendur þar sem einn reyndasti og einn yngsti kammerkór landsins komu fram sem einn hópur. Í ljósi árangurs hins eftirtektarverða akureyrska kammerkórs Hymnodiu á Myrkum músíkdögum aðeins rúmri viku áður er von að maður spyrji hvort íslenzkur kammerkórsöngur, er tók hraustlega við sér laust fyrir síðustu aldamót, hafi nú hafið nýja sókn er gæti á endanum jafnvel leyst stóru blönduðu kórana af hólmi. A.m.k. hefur lengi þrengt illþyrmilega að stærri miðlinum miðað við ástand fyrri áratuga, meðan áhugasöngvarar hafa í vaxandi mæli flykkzt í karla- og kvennakórana. Eftir ýmsu að dæma lítur því út fyrir að stórum blönduðum kórum fari senn fækkandi á móti fjölgun kammerkóra, er með tilstyrk æ menntaðri söngvara eiga auðveldara með að sérhæfa sig í erfiðum verkefnum. Meðal neikvæðari hvata kammerkóra má auðvitað telja króníska karlaeklu. Enda tókst jafnvel ekki einu sinni hér að fullskipa í tenór (10- 8-5-8), er háði svolítið fullum heildarhljómi. Það var hins vegar nánast eini dragbíturinn á frammistöðu kóranna tveggja, því hljómgæði hverrar raddar fyrir sig voru óhikað í úrvalsflokki, og í markvissri og sveigjanlegri mótun stjórnandans fékkst hið bezta úr hverri í undragóðri samblöndun. Gerði það, ásamt ósviknu gæðamarki viðfangsefna, tónleikana að einni samfelldri unaðsstund – og er þá vægt til orða tekið. Fjórar kórperlur Þorkels Sigurbjörnssonar – Til þín, Drottinn, Legg ég nú bæði líf og önd, Heyr himna smiður og Englar hæstir – er jafnvel í miðlungsflutningi hafa yljað landsmönnum um hjartarætur, náðu hér virkilega að blómstra. Þ.á.m. hin næstsíðasttalda – þrátt fyrir óvenjuhratt tempó sem raunar fór henni betur en fyrst hefði mátt ætla. Túlkun hinnar rytmískt líflegu tónsetningar Hildigunnar Rúnarsdóttur á Drottinsfagnandi 150. Davíðssálmi hefði, ásamt kraftmestu stöðunum í ljóðrænum Trois chansons Debussys (einkum í Quant j’ai ouy la tambourin) að vísu mátt létta ögn af fáguninni til ágóða fyrir beinskeyttari lífsgleði, en listileg mótunin lét þó hvergi að sér hæða. Hér fór seiðandi smíð er þyldi jafnvel enn meira slagverk en handsymbala Steefs van Oosterhout. Vinsæl Guðsmóðurlög Báru Grímsdóttur, María Drottins liljan og erkismellurinn Ég vil lofa eina þá, steinlágu eins og sagt er. Loks var komið að „munkinum með götustráksinnrætið“, skv. sjálfslýsingu Francis Poulencs. Einlæg hómófónísk mótetta hans Salve Regina (1941) skartaði, líkt og fleira undangengið, skemmtilega víðfeðmri dýnamík og næmari textatúlkun en gengur og gerist í hérlendum kórsöng. Lokaverkið, 16 mín. löng Credo-laus Messa Poulencs í G-dúr (1935), var kröfuharðasta atriði dagsins, m.a. fyrir krómatískt djarfa hljómabeitingu, auk þess sem mikið var lagt á einsöngvara og smærri sönghópa (einkum í háttlægum kvenröddum), en í óþvingaðri túlkun kóranna var samt engu líkara en að flest væri þeim kálfskinn eitt. Sérstaklega bar Agnus Dei lokaþátturinn yfirbragð innblásins frumleika, enda nánast eins og mannshugurinn næði þar þyngdarlausri „satori“ alsælu í eftirminnilega ómsætri meðferð kóranna. Þar sem fyrr mátti og heyra bráðfallegan smáhóp- og einsöng. Er vonandi á engan hallað þó sérstaklega sé tilgreint íðiltært sólóframlag Hallveigar Rúnarsdóttur, er í Kyrie og Agnus Dei jafnaðist á við það fegursta sem maður hafði nokkru sinni heyrt frá þeirri frábæru seiðkonu efstu upphæða.

Ekkert að gerast

Óskaplega er mikil deyfð yfir blogginu þessa dagana. Og þá spyr maður sig hvað er það sem veldur? En það er fátt um svör.

Svo við hættum að spá í því og hugsum um eitthvað skemmtilegt, eins og að bolludagur er í nánd...

17. febrúar 2006

Raunir strætóferðalangs

Fór til tannlæknis í gær og tók strætó. Nei ér eg ekki að kvarta yfir leiðarkerfinu og yfirleitt ganga þessar strætóferðir mínar nokkuð hnökralaust fyrir sig. Nema hvað að það voru óvenju margir í strætó í þetta skiptið og fljótlega eftir að ég kem í vagninn sest fyrir aftan mig maður sem lyktar svona svakalega illa. Þetta var sambland af andfýlu vegna illra hirtra tanna, tóbaksreyks og vottur af áfengi þið vitið svona daginn eftir ilmur (eftir nokkurra daga stífa drykkju). Þeir sem til þekkja vita að þess lags blanda getur verið ansi þung í nös.

Þegar ég hélt að ég gæti ekki haldið þetta út lengur berst til mín annarskonar lykt sem kemur úr öðru líkamsopi en sú fyrri. Sú er svo svakaleg að mér finnst ég ekki geta andað lengur.
Fyrstu viðbrögð voru þau að reyna að halda niðrí mér andanum eins lengi og mögulegt er og freista þess að ná að halda andanum yfir verstu kviðuna. En það dugði ekki til og þið vitið hvernig þetta er þegar maður hefur haldið niðrí sér andan um í einhvern tíma, þá þarf maður nottla að anda duglega á eftir...

Og þegar þessi hrina var yfirstaðin tók við fyrri ilmur sem var þó að því leitinu skárri að það henni fylgdi ekki þessi ógurlega köfnunartilfinning eins og hinni.

Sem sagt eins sú mesta hryllingsstrætóferð sem ég hef upplifað lengi.

15. febrúar 2006

Frönsk og íslensk kórtónlist í Hallgrímskirkju


Næstkomandi sunnudag kl 17.00 munu kammerkórarnir Hljómeyki og Kór Áskirkju halda saman tónleika í Hallgrímskirkju á vegum listvinafélags kirkjunnar. Á efnisskrá verður frönsk og íslensk kórtónlist eftir Claude Debussy, Francis Poulenc, Báru Grímsdóttur, Hildigunni Rúnarsdóttur og Þorkel Sigurbjörnsson. Þar á meðal verður eitt kröfumesta kórverk síðustu aldar, Messa í G-dúr eftir Poulenc og er þetta í fyrsta sinn sem verkið er flutt hér á landi.

Hljómeyki er fyrir löngu orðinn einn af þekktustu kammerkórum landsins. Hann var stofnaður árið 1974 og hefur frumflutt fjölmörg íslensk tónverk á Sumartónleikum í Skálholti síðastliðin 20 ár. Kórinn hefur þar að auki gefið út 4 geislaplötur með verkum eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Þorkel Sigurbjörnsson, Báru Grímsdóttur og Jón Nordal og mun á næstunni gefa út geisladisk með tónlist Hildigunnar Rúnarsdóttur.
Þrátt fyrir að vera stofnaður mun síðar eða árið 2001, hefur Kór Áskirkju einnig vakið töluverða athygli á undanförnum árum fyrir forkunnarfagran söng. Árið 2004 var geisladiskur kórsins, Það er óskaland íslenskt, tilnefndur til Íslensku Tónlistarverðlaunanna í flokki klassískrar tónlistar.
Stjórnandi kóranna á tónleikunum verður Kári Þormar organisti Áskirkju og stjórnandi Kórs Áskirkju. Aðgangseyrir er 2000 krónur en 1500 krónur fyrir aldraða og öryrkja.

14. febrúar 2006

Stressvika framundan

Svaf frekar illa í nótt. Það er svo mikið að gera hjá mér í þessari viku. Ekki bara er verið að undirbúa tónleikana (í Hallgrímskirkju á sunnudag kl. 17. Kór Áskirkju og sönghópurinn Hljómeyki sameina krafta sína kostar kr. 2.000 inn) og aukaæfingar út um allt, heldur er líka allskonar annað. Þrjá daga í þessari viku þarf ég að hætta fyrr í vinnunni annarsvegar til að sinna skólastarfi (er í foreldraráði) og svo á ég tíma hjá tannlækni (er með skemmd og það þarf að bora) Fyrir utan þetta venjulega skuttl hingað og þangað með börnin í ballett og söng o.þ.h.

Það er þannig hjá mér að þegar svona margt er í gangi í einu að þá hamast heilinn við að muna þetta allt saman (þó ég sé búin að skrifa það kirfilega niður í Bókina) og raða niður hvernig best sé að leysa og sniða þetta inn í almenna dagskrá fjölskyldunnar. Það getur leytt af sér of-hugsun og þá er voðinn vís. Útkoman getur verið slæmur svefn, höfuðverkur og jafnvel vöðvabólga. Fyrstu einkennin eru að koma í ljós ...

Það verður gott að geta slappað af í næstu viku.

12. febrúar 2006

Fleiri myndir

Hrund hefur svolítið gert af því að taka svona fallegar myndir og hér eru nokkrar í viðbót sem teknar voru síðasta sumar












10. febrúar 2006

Góðan og blessaðan daginn!



Það er orðið hlýtt aftur, svaka fínt!
hmm ég hef eiginlega ekkert að segja, en stefnan er að koma brosköllunum aðeins neðar og vonandi úr augsýn. Er satt að segja komin með svolítið leið á þeim (kemst upp um mig er alltaf að kíkja á bloggið).

Hrund tók þessar myndir sem fylgja hér með. Ég hef alltaf verið einstaklega hrifin af sjávarmyndinni. Við létum stækka hana og hangir hún núna inni í stofu hjá okkur, virkilega fín mynd. Það er eitthvað svo einstaklega heillandi við sjóinn, finnst ykkur ekki?

9. febrúar 2006

Broskallar

Sko hér varði ég löngum tíma í að reyna að setja inn leiðbeiningar um hvernig best sé að koma brosköllum inn á bloggið, en til þess þarf að setja langa romsu á HTML máli sem bloggið mitt vildi ekki skilja að ætti ekki að lesa sem HTML. Þannig að ég gafst upp.
En til er síða sem hefur slóðina http://www.clicksmilies.com/ hún hefur að geyma margskonar broskalla og hefur hún flokkað þá í grúbbur, en það virkar ekki að nota slóðina beint þaðan það vantar fullt.

Kannski einhver þarna úti sé jafn klár og hann Elías minn til að finna þetta út sjálf(ur).

7. febrúar 2006

Skemmtileg ópera

Fór að sjá Öskubusku í Íslensku Óperunni. Skemmti mér svona glimrandi vel. Þetta er fjörug og létt ópera fyrir alla fjölskylduna. Fólk var þarna með pínulítilbörn sem voru bara nokkuð stillt, eitt barnið geyspaði stórum í eitt skiptið, en það var bara fyndið.
Ég ætla að sjá óperuna fljótlega aftur með stelpunum mínum því ég efast ekki um að þær hafi gaman að þessu líka.
Tónlistin er auðmeltanleg þó ekkert lagið væri sérlega grípandi að mínu mati þ.e. ég kom ekki sönglandi út af sýningunni.
Ég er sammála gagnrýnanda Moggans í dag.

6. febrúar 2006

Þetta kann ég!!!

Margir voru mjög undrandi að sjá hversu klár ég get verið þegar ég setti inn link í comment við blogg frænku minna Kolbrúnar í síðustu viku. En ég er ekki þannig að ég vilji vera sú eina sem get gert þetta svo hér er slóð inn á síðu sem kennir hvernig hægt er að gera allskonar svona töfrabrögð: http://www.web-source.net/html_codes_chart.htm/ kíkið endilega á þetta aldrei að vita nema þið sjáið eitthvað sem þið getið notað.
En þó ég sé ótrúlega klár þá tekst mér ekki að láta slóðina opnast þar sem ég vil. Það sem þið getið gert er eitt af tvennu. Smellið á slóðina sem ég gef upp og veljið HTML codes eða takið afrit af slóðinni og skellið inn í vafrann ykkar.
Og fyrst ég er svona gjafmild að gefa upp þessar upplýsingar langar mig að athuga hvort einhver hér úti kunni þau fræði að setja inn broskarla í bloggið og er tilbúinn til að opinbera þá kunnáttu hér. Það væri vel þegið :)

2. febrúar 2006

Það helsta í lífi mínu þessa dagana

Jú ég er að fá í mig hálsbólgu og kvef, líklegast hefur Eyrún smitað mig því hún liggur núna heima í svona veikindum litla skinnið. En ég verð að ná þessu úr mér fyirr næstu viku því þá verða stífar æfingar í Áskirkjukór, við erum að undirbúa tónleika með örðum kór sem verða núna í febrúar (betur auglýst síðar).

Svo er Kanadaferðin í sumar farin að pota sér inn í meðvitundina. Ég er að fara í mitt fyrsta kórferðalag til útlanda síðan ég hætti í barnakórnum hér um árið. Reyndar verður ekki farið fyrr en í júní, en í fyrradag borgaði ég staðfestingargjaldið og þá er það einhvernvegin orðið áþreifanlegra.

Í fyrradag áttaði ég mig á því hvað kókakóla skipar stóran sess í lífi mínu. Þann daginn sleppti ég því að sötra þennan 1/2 líter sem ég geri venjulega í kringum hádegisbilið og viti menn kl. 20 var ég að leka niður af þreytu og sleni. Ótrúlegt hvað lítið drukk hefur mikil áhrif. Lærði af þessu að sleppa aldrei úr kóksopanum mínum :)

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...