31. desember 2010

Kerra fyrir hjólið

Elías smíðaði kerru til að tengja við hjólið mitt. Mamma og pabbi eru með hana í prufukeyrslu núna, eru búin að fara út í búð og kaupa í matinn og fleira. Hafa komið með ýmsar ábendingar um betrumbætur, sem er gott að fá.

Einn kosturinn við þessa kerru er að hún tekur lítið pláss í geymslu, en hún leggst saman. Þ.e. dekkið og armurinn leggjast inn á kerruna þegar hún er ekki í notkun og það fer ótrúlega lítið fyrir henni.

Hugmyndin að kerrunni kom frá mömmu og pabba því þau eru að plana að hjóla hringinn næsta sumar. Þá þurfa þau meiri farangur með sér og kerra sem dregin er eftir hjólinu gæti verið góður kostur. Þau báðu Elías um að leita eftir notaðri kerru á netinu, því svona kerrur kosta töluverðan pening nýjar út úr búð. Elías fór að leita, en fann ekki notaðar til sölu en sá hinsvegar margar gerðir og útgáfur af svona kerrum og taldi sig vel geta smíðað eina slíka. Svo hann gerði það og þetta er afraksturinn.

9. desember 2010

Vika

Nú fer þetta allt að koma, bara vika þar til Hrund kemur heim.

Það hefur verið nóg að gera í kór-stússi þessa dagana, svona af því að í augnablikinu er ég að syngja í tveimur kórum. Á sunnudaginn var aðventusamkoma í Áskirkju. Svo á þriðjudag var kóræfing þar og í gær kóræfing hjá Fílharmóníunni. Í kvöld verður líka æfing hjá Fíló, en ég kemst ekki þá og en ég fer á laugardagsæfinguna. Svo á sunnudagskvöldið eru fyrri tónleikarnir. Ég hlakka til að heyra þetta allt koma saman með einsöngvara og hljóðfæraleik. Þetta verða örugglega skemmtilegir tónleikar. En það verðu líka gott þegar þessi törn er búin.

2. desember 2010

Tvær vikur.

Eftir nákvæmleg tvær vikur verður Hrund komin heim til okkar í jólafrí. Þá verður hægt að fara að baka piparkökur. En við verðum að finna kasettutæki til að geta spilað aðal-jólalögin sem eru á spólu.

Í nótt dreymdi mig að ég var að labba heim með einhverjum, líklegast útlendingi og það hafði snjóað töluvert. Og ég hlakkaði svo til að komast heim til að moka snjóinn.

Í gær gleymdi ég að vökva Írsku jólakökuna, hún fékk því tvöfalldan skammt í dag :)

24. nóvember 2010

Aðventan

Í dag eru 3 vikur og 1 dagur þar til Hrund kemur heim í jólafrí frá París. Við erum mikið farin að hlakka til að fá hana heim aftur.

Næsta sunnudag er svo fyrsti í aðventu, þá verður lítill pappakassi tekinn niður af háaloftinu sem merktur er þessu tímabili og fyrsta jólaskrautið fær að príða húsið.
Svo fer að koma tími fyrir piparkökubakstur og í ár ætla ég að baka Írsku jólakökuna í fyrsta skipti og þarf ég að fara að drífa í því svo hún verði fín og flott fyrir jólin.

4. nóvember 2010

Fyrsti snjórinn

Og þá er ég komin í fullan vetrarskrúða. Gönguskór og ullarsokkar toppa lýsinguna á færslunni frá því í gær. Í morgun gleymdi ég ekki vettlingunum frá Eyrúnu svo ég var ansi vel búin.

Ekki var farið að skafa stígana sem ég hjólaði í morgun, annars var færðin bara nokkuð góð. Ég var u.þ.b. 3-4 mín lengur á leiðinni en undanfarna daga, það er þyngra að hjóla í snjónum.

3. nóvember 2010

Hjólafréttir - Vetrarklæðnaður

Nú er farið að verða ansi kalt. Hitastigið undir frostmarki og norðanvindurinn blæs. Mér finnst ótrúlegt hvað ég finn lítið fyrir kuldanum á leiðinni í vinnuna. Mér var örlítið kalt á fingrunum fyrri part leiðarinna, en það er af því að ég gleymdi að taka vettlingana sem Eyrún heklaði handa mér og ég hef utan yfir fingravettlingana þegar veðrið er svona kalt.
Svo beit aðeins í kinnarnar.
En svona er ég klædd á hjólinu:
Gallabuxur og regn-/útivistarbuxur frá Didrikson utan yfir. Svo er ég í bómullarbol , lopapeysu og með hálsklút út bómull og utan yfir það er regn-/útivistarjakki frá Didrikson.
Á höfðinu hef ég buff sem ég fékk í kvennahlaupinu í vor og svo hjálm þar yfir.
Ég er ekki enn komin í vetrarbúninginn á fótunum og er í sumarskónum og í bómullarsokkum en ég finn enn ekki fyrir kulda á tánum, sem mér finnst frekar skrítið því skórnir eru hálf opnir.
Fingurnir eru svo huldir með fingravettlingum úr ull og þegar svona kalt er set ég yfir þá vettlingana frá Eyrúnu, sem þó gleymdust í morgun.
Það er talað um að maður eigi ekki að vera í bómull næst sér því hún dregur í sig bleytu eins og svita og það er alveg rétt og ef ég færi lengri leið þyrfti ég að breyta þeim fatnaði en bolurinn virkar vel þessar 20 mín sem tekur mig að komast til og frá vinnu.

27. október 2010

Fyrsti dagur í hálku

Í dag var héla á götum og gangstéttum þegar ég lagði af stað í vinnuna. Núna var ég glöð að vera komin á nagladekkinn, þó ég hafi verið farið að hugsa að ég hefði verið of fljót á mér að setja þau undir.

Ég sá 5 aðra hjólreiðamenn í morgun en ég gat ekki heyrt að nokkur þeirra væri á nagladekkjum þannig að það eru margir sem eru óhræddir við hálkuna.

Veturinn leggst vel í mig og ég hlakka til að takast á við hann. Vonandi verða stíga mokaðir nógu snemma þegar snjórinn lætur sjá sig því það er eitt af því erfiðasta sem ég lendi í að hjóla í miklum snjó. Það er ansi þungt. Þá er kári vinur minn viðráðanlegri þó hann eigi til að blása ansi stíft.

11. október 2010

Hjólafréttir.

Komin á nagladekkin og tilbúin undir veturinn, þó hann hafi lítið látið á sér kræla þetta haustið. Htitnn 10°c þegar ég lagði af stað í vinnuna í morgun.
Alltaf svolítið skritið að hjóla fyrst á nöglunum en mér líkar vel við brakið í þeim því það lætur aðra vegfarendur vita þegar ég kem aftan að þeim.

26. september 2010

Hjartadagshlaupið


Í morgun hlupum við pabbi í Hjartadagshlaupinu 5 km. Það var rok og rigning allan tímann. Til að byrja með var vindurinn í bakið, svo á móti en endaði sem meðvindur.
Við fórum þetta á 36 mín skv. minni garmin græju en ég er ekki búin að sjá úrslitin og hvaða tíma við erum skráð með þar. Myndin er tekin fyrir hlaupið og Kristinn er þarna með okkur en hann hljóp 10 km.


Það var nú bara þónokkur hópur að hlaupa þrátt fyrir veðrið og ég er mjög ánægð með að hafa farið með pabba í þetta. Það er svo ótrúlega gaman að hlaupa í svona hlaupum. Þegar ég hef verið að puðast þetta ein í hverfinu eru 3 km alveg meira en nóg. Og þess vegna m.a. svaf ég frekar illa í nótt þar sem ég taldi mig varla geta hlaupið þetta í dag og í þessu veðri. En það er bara allt annað að hlaupa með einhverjum.
En ég verð samt að viðurkenna að núna er ég ansi orkulaus og ekki til í mikið erfiðara verkefni en að sitja í sófanum og prjóna.

19. september 2010

Minning. Kisinn Brandur.

Brandur er allur.

Hann kom inn í fjölskylduna okkar í september 2003 úr Kattholti. Lítill og með kvef. Það var ekki vitað hvenær hann fæddist en talið var að hann hafi verið 3-4 mánaða.

Hrund fékk hann í afmælisgjöf og fórum við saman í Kattholt til að skoða kisurnar þar. Hrund hafði nú eiginlega hugsað sér að fá sér læðu, en Brandur heillaðist af henni og þá var ekki aftur snúið.

Það voru dverghamstrar á heimilinu þegar Brandur kom og var hann gagntekinn af þeim, svo mikið svo að hamstrarnir þurftu að flytja búferlum inn í svefnherbergi. Brandur litli varð nú frekar svekktur yfir þessu.

Svo liðu árin og Brandur stækkaði og stækkaði. Hann átti kisu vini um allt hverfið og af og til komu kisur til okkar í pössun og það var ekkert vandamál, Brandur var hinn besti fóstri og tók þær að sér.

Hann vissi fátt skemmtilegra en að fara ofan í kassa og var alltaf jafn forvitinn að vita hvort hann kæmist (og við stundum að vita hvort hann kæmist uppúr aftur).

Svo fyrir rúmu ári síðan fluttum við úr Karfavoginum í Skipasundið. Það var ekki góður tími fyrir Brand, hann var ekki alveg að átta sig á þessari vitleysu að breyta um umhverfi og var alltaf að stinga af í gamla hverfið. Oftast gátum við sótt hann í Karfavoginn eða á Vogaskólalóðina en það kom fyrir að hann fannst ekki í nokkra daga jafnvel vikur.

En loksins áttað hann sig á nýja heimilinu og þá varð hann mikið rólegri en hann hafði nokkru sinni áður verið. Þegar gestir komu í heimsókn stakk hann ekki af eins og hann hafði gert þangað til heldur sat hinn rólegasti á þeim stað sem hann hafði valið sér þá og þá stundina. Menn höfðu orð á breytingunni sem orðin var á honum, jafnvel fengu sumir að klappa honum sem áður höfðu ekki fengið tækifæri til þess.

Brandi fannst gaman að leika úti í garðinum og var mikið að skottast í kringum okkur ef við vorum úti. Hann var líka námsfús sem sást best á því að þegar stelpurnar voru að læra heima vildi hann fá að lesa í bókunum líka og settist ævinlega ofan á skólabækurnar fengi hann tækifæri til þess.

Í dag varð Brandur fyrir bíl og dó samstundis. Við munum sakna hans.

31. ágúst 2010

Brandur




Brandur var bitinn, lílegast af öðrum ketti. Í gær fór hann á dýraspítalann og þar var sárið hreinsað og saumað. Hann kom svo heim í morgun með kraga eins og sést á myndunum. Þeta þarf hann að vera með í 10 daga.

23. ágúst 2010

Fleiri hjólafréttir


Á heimleið í dag prófaði ég að hjóla Hverfisgötuna og er það í fyrsta skipti eftir að hún var gerð að hjólavænni götu. Ég varð fyrir miklum vonbrygðum og fannst alls ekki gott að hjóla hana eins og hún er núna. Ekki nema bara akkúrat þegar ég var á grænmáluðu strimlunum.
Það sem er að (að mínu mati) er að af og til þarf að fara inn á götuna sjálfa, þar sem þrengingar eru og á gatnamótum. Mér fannst það óþægilegt og stressandi. En ég stefni þó að því að hjóla þetta aftur því það er kannski ekki alveg að marka svona í fyrsta skiptið.
Annað; Á einum stað kom hjólandi vegfarandi á móti mér á græna strimlinum. Er það ekki misskilningur hjá viðkomandi hjólreiðamanni? Eiga hjólreiðamenn ekki að halda sig hægramegin á götunni?

Í morgun var ég næstum búin að hjóla beint í veg fyrir akandi umferð.

Þannig er að ég hjóla eftir Sæbrautinni í átt að miðbænum. Þar sem stígurinn endar við Hörpu tónlistarhús fer ég yfir á ljósunum.

Í allt sumar hafa ljósin verið þannig stillt að ljósið verður rautt á þá sem fara beint og svo kemur beygjuljósið (fyrir þá sem aka Sæbrautina) eftir það verður grænt fyrir þá sem fara þvert yfir Sæbrautina.

Og í morgun kem ég aðvífandi einmitt þegar beygjuljósið er orðið rautt og ætla beint yfir (eins og ég hef gert svo oft áður) en þá er búið að breyta ljósunum. Og rétt áður en ég er komin út á akveiginn er bíl ekið beint fyrir mig. Mér krossbrá og nauðhemlaði og rétt náði að stöðva í tæka tíð.

Það er sem sagt búið að breyta ljósunum þannig að það kemur ekki grænt ljós fyrir þá sem fara þvert nema bíll bíði á ljósunum eða að stutt er á hnappinn.
Mikið svakalega brá mér. Þarna hefði ég svo auðveldlega getað endað sem klessa á götunni. Af hverju ætli ljósunum sé breytt svona? Er sumar- og vetrartímar á umferðaljósunum?

21. ágúst 2010

Reykjavíkurmaraþon

Ég og Eyrún hlupum 3 km í Reykjavíkurmaraþoninu í dag. Ljómandi fínt hjá okkur, tókum líka þennan flotta endasprett þar sem ég reyndi eins og ég gat að ná Eyrúnu sem allt í einu fann einhverja aukaorku og þvílíkt spretti úr spori.

24. júlí 2010

Hjólaferð um suðurnesin.






Þetta er rétt hjá Eyrúnu ég ætlaði að skrifa texta með myndinni. Við sem sagt fórum í þessa skemmtilegu hjólaferð í frábæru veðri. Vorum 24 allt í allt (ef ég man rétt) þar af 3 sem sátu í barnasætum.


Nokkrar staðreyndir um ferðina:
Heildarvegalengd: 27 km. (Keflavík-Sandgerði 11,5 km, Sandgerði-Garðskagaviti 6,5 km, Garðskagaviti-Keflavík 9 km)

Hjólatími (tíminn ekki stoppaður í styttri stoppum): 1 klst og 57 mínútur.

Meðalhraði: 14 km/klst

Við höfum bíl með kerru með okkur alla leið. Honum var ekið nokkra kílómetra á undan og beið svo. Það kom sér vel því sumir, sérstaklega af yngrikynslóðinni urðu ansi þreyttir. Enda ekki skrítið þar sem litlu hjólin þarf að stíga hraðar en þau stærri.


Á leiðinni eru engar brattar brekkur, aðeins aflíðandi. En sú lengsta og brattasta af þeim var strax í upphafi. Við hófum og enduðum hjólreiðarnar við Duus hús í Keflavík.


Í Sandgerði fengum við okkur að borða og skoðuðum svo Fræðasetrið sem er náttúrugripasafn og hluti af því er innréttað eins og var í skipinu Pourquoi pa? og er það mjög svo áhugavert að upplifa og sjá. Það var mótvindir þegar við hjóluðum frá Sandgerði og út á Garðskaga og nokkrir voru þarna farnir að finna til þreytu, enda voru ferðalangar mjög mis vanir hjólreiðum, en tilgangur ferðarinn var ekki að fara hratt yfir og við stoppuðum af og til og hér og þar og fengum þá fræðslu frá Hildi móðursystur um landið og söguna en hún er einstaklega fróð um þetta landsvæði.


Við Garðskagavita tókum við okkur góða og langa hvíld. Fengum okkur aftur að borða og lögðumst/settumst á grasið og höfðum það notarlegt. Nokkrir vildu komast upp í vitann, en til að gera það þarf að fá lykil í þjónustumiðstöðinni. Enginn fær að fara upp í vitann sem er yngri en 18 ára nema í fylgd því vitinn getur verið varasamur ef menn fara ekki gætilega. En það var vel þess virði að fara upp í vitann því útsýnið efst úr honum er frábært.


Við lögðum af stað á hádegi og vorum komin aftur til Keflavíkur kl. 18. Svo allt í allt var þetta 6 klst ferðalag. En það var virkilega gaman og ferðafélagarnir skemmtilegir. Svona ferð verður endurtekin, það er bara eftir að finna út hvert við förum næst.


9. júlí 2010

Hjólafréttir


Ég og Eyrún hjóluðum í heimsókn í Kópavoginn og heim aftur. Veðrið var dásamlegt, glampandi sól og svolítill vindur a.m.k. af og til. Fórum fyrst Kópavogsdalinn en þar eru stigar upp og niður og út og suður í beygjur og bugður. Það hentaði Eyrúnu ekki vel.

Á heimleið fórum við Fossvogsdalinn og hann hentaði okkur betur. Breiðari stígar og beinni. Vorum sérstaklega hrifnar af hjólastígnum.

7. júlí 2010

Hjólaferð um Hvalfjörð.



Nokkrar staðreyndir um hjólatúrinn:
Vegalengd: 60,2 km
Hjólatími: 3 klst og 50 mín
Ferðatími: 6 klst.
Meðalhraði: 15,7 km/klst
Hámarkshraði: 52,5 km/klst
Veður: Fínt, smá vindur, eitthvað af sól, einn rigningarskúr.
Ferðafélagar: Abelína Hulda, Halldór, Elías, Guðlaug, Adda, Þórhallur og ég.




Lögðum af stað úr bænum um kl. 9 á 2 bílum og ókum að Hvalfjarðarvegi norðanmegin. Þar fóru hjólagarpar úr bílunum og annar bíllinn fór í bæinn aftur, bílstjórinn Aðalheiður en hún ætlaði svo að koma aftur eftir hjólatúrinn og sækja hjólreiðamenn. Hinn bíllinn með kerru aftan í ferðaðist með okkur og skiptust menn á því að keyra bílinn 5-10 km á undan hópnum og hjóla svo á móti hinum.


Hjóluðum af stað kl. 10. Veðrið var fínt, svolítill mótvindur en ágætlega hlýtt. Til að byrja með var leiðin aflíðandi upp í móti. Ferðafélagar voru misvanir hjólreiðum og það dreifðist aðeins úr hópnum en við hittumst þó alltaf hjá bílnum aftur. Sumum fannst góð hvíld að fá að keyra bílinn af og til. Í botni Hvalfjarðar stoppuðum við í svolítinn tíma, fengum okkur að borða og aðeins slökuðum á, þá búin að hjóla 25 km. Þar voru flugur svolítið að stríða okkur og einhverskonar flær (þó þær væru ekki eins pirrandi og flugan).
Þriðjudagurinn varð fyrir valinu því við töldum að þá væri umferðin líklega ekki eins mikil og um helgi. Það var samt töluverð umferð og ótrúlega margir ökumenn óhræddir að aka á öfugum vegahelmingi á móti blindhæðum og beygjum til að komast fram úr okkur. Það er mesta mildi að ekki komu bílar á móti. En allt gekk vel, engin slys sem betur fer.
Fyrir ferðina hafði ég bæði verið kvíðin og full tilhlökkunar. Því ég hef oft látið mig dreyma um að hjóla þessa leið, en kvíðinn var út af því að ég hélt að kannski væri leiðin allt of erfið. Það er svo skrítið hvernig maður getur miklað hluti fyrir sér. Staðreyndin er sú að þetta var yndislega skemmtilegur túr og maður auðvitað fer á sínum hraða og eftir sinni getu.
Við ræddum það á leiðinni hvað það er mikil sind að hvað menn almennt halda að það sé erfitt aðhjóla þegar í raun er það auðvelt. Og þá vorum við ekki að tala um að fara í svona ferðir heldur bara almennt að hjóla milli staða innanbæjar. En líka vorum við sammála um að fleiri séu að átta sig á þessu og hjólreiðamönnum hafi fjölgað í höfuðborginni og svæðunum þar um kring.

6. júlí 2010

Borð á pallinn.

Og þegar pallurinn er kominn þá vantar borð. Svo það er smíðað úr afgöngum af gamla og nýja pallinum.


27. júní 2010

Endurbættur pallur

Úbbs, myndirnar eru í öfugri röð, við vorum sem sagt að smíða þennan pall en ekki að taka hann í sundur.









26. júní 2010

Á dauða mínum átti ég fyrr von en að ég hefði gaman að því að lesa Halldór Laxness

En svona geta hlutrnir breyst. Það var þannig að við pabbi vorum að ræða bókalestur snemma á þessu ári og ég sagði honum frá því að ég gæti bara ekki lesið verk eftir Halldór. Jú ég hefði farið í gegnum Íslandsklukkuna í skóla en ekki skilið hana. Svo hafi ég 2x reynt að lesa Kristnihald undir jökli en í bæði skiftin gefist upp komin inn í hálfa bók. Þess vegna var ég búin að ákveða að þetta væru bara ekki bókmenntir fyrir mig. Pabba fannst þetta ekki hægt þar sem hann heldur mikið upp á nóbelskáldið og lánaði mér Innansveitarkronikuna sem hann sagði vera fínustu bók og góð fyrir byrjendur. Ég fékk bókina lánaða svona meira til að gleðja föður minn en af löngun til að lesa. Síðan hefur bókin fengið að liggja í bókabunka í gluggakistunni hjá mér.

En þar kom að því að mig vantaði bók að lesa úti í sólinni og þá greip ég Innansveitarkronikuna. Ég gerði mér ekki miklar vonir og ekki byrjaði það vel því ég misskildi fyrstu setninguna og varð að lesa hana aftur til að skilja. Hún er svona:
"Þegar þjóðhetja Íslands og höfuðskáld Egill Skallagrímsson hafði um skeið bygt haug sinn í Mosfellsdal nær þjóðbraut þar sem heitir í Tjaldanesi af því ferðamenn tjalda þar, þá kom kristni í landið."
Það var þetta orðala að byggja haug sem tók tíma að átta sig á. Ég sá manninn fyrir mér puða við að byggja eitthvað en í stað þess lá hann dauður og heygður.
Eftir að hafa komist yfir þessa fyrstu hindrun átti ég barasta erfitt með að leggja bókina frá mér. Og það kom mér verulega á óvart að upplifa það um kvöldið þegar ég las fyrir svefninn að ég fór út í að lesa "bara einn kafla í viðbót" eins og maður gerir stundum með bækur sem fanga mann og les þá aðeins of lengi.

Líklegast hef ég hingað til ekki haft þroskann til að skilja skrifin hjá Halldóri.
Svo er hér ein setning úr bókinni sem mig langar að setja hér inn því hún er snilld:
"Því hefur verið haldið fram að íslendingar beygi sig lítt fyrri skynsamlegum rökum, fjármunarökum varla heldur, og þó enn síður fyrir rökum trúarinnar, en leysi vandræði sín með því að stunda orðhengilshátt og deila um titlíngaskít sem ekki kemur málinu við; en verði skelfíngu lostnir og setji hljóða hvenær sem komið er að kjarna máls."

10. júní 2010

Hitt og þetta




Það er svo margt að gera þessa dagana. Mikið um breytingar. Báðar stelpurnar mínar útskrifuðust nú í vor, önnur úr grunnskóla og hin úr menntaskóla. Báðar svo yndislega frábærar og dásamlegir einstaklingar.






Hrund er að fara til Parísar á dansnámskeið í fjórar vikur, hún sem hefur aldrei verið í burtu frá okkur lengur en í viku í senn. Og allt stefnir í að hún fari svo út aftur í haust í meira dansnám. Eyrún er ekki búin að fá svör frá framhaldsskólunum sem hún sótti um svo það er enn óljóst hvort hún kemst inn í þá. Inntöku reglur breyttust, tilgangurinn með breytingunni var að reyna að koma öllum í framhaldsskóla í haust sem sækja um, nema hvað að þær takmarka einnig að krakkarnir komist í aðra skóla en sína hverfaskóla. En við sjáum hvað verður.





Mánudag og þriðjudag tók ég mér frí frá vinnu. Á mánudaginn fór ég í fjöruferð með nornunum í fjölskyldunni. Tilgangurinn að hittast og kíkja á plöntulífið í fjörunni. Við hittumst upp á Kjalarnesi heima hjá Minnu sem býr þar í paradís rétt við sjóinn. Sólin skein í heiði og við áttum yndislega stund hlaupandi léttfættar um ströndina og tánum aðeins díft í sjóinn.

21. maí 2010

Hjólafréttir

Hjólaði meðfram Miklubraut í morgun. Einu sinni hjólaði ég þá leið að jafnaði til og frá vinnu en þá hjólaði ég líka hægar. Þessi leið hentar mér ekki lengur því ég vil fara hraðar yfir og án töluverðra hindrana. En þessi leið er sannarlega þrautabraut.

Og hér kemur tuðið í pirruðum hjólreiðamanni.

Fyrsti kaflinn er í lagi, frá Skeiðarvogi að Grensásvegi (ef horft er framhjá glerbrotahrúgum hér og þar).
Síðan er það brekkan upp að Háaleitisbraut sem endar í blindhorni og ég get hvorki séð hvort bílar eru að koma upp brekkuna og ætla að beygja til hægri eða þeir mig vegna brekkunnar sem búin var til í þeim tilgangi að dempa hljóðið frá bílunum. En brekkan nær of langt upp og of nálægt gatnamótunum og hindrar útsýni. Gatnamótin þarna yfir voru löguð fyrir ekki svo löngu og þá var settur skrítinn rani af kantsteini, líklegast til að beina umferð hjólandi í rétta sveigju, en að sjálfsögðu hafa snjóruðnings tækin ekki séð þennan rana í vetur og hann er nokkuð laskaður, fyrir utan að vera til mikilla óþurfta.
Næsti kafli nær að Kringlumýrarbraut og hér er umferðin um stíginn orðin meiri bæði af gangandi og hjólandi. Ég sé að hjólreiðamenn eru þó farnir að halda sig hægra megin á stígunum sem er gott og flestir gangandi líka. En helsta hindrunin hér er strætóskýlið við göngubrúna. Þar er allt morandi í glerbrotum og ég virðist alltaf hitta þannig á að strætó er stopp og að hleypa út farþegum sem oftar en ekki eru mjög ómeðvitaðir um umhverfi sitt og gera ekki ráð fyrir umferð hjólandi.
Gatnamótin yfir Kringlumýrarbraut eru ómöguleg og leiðinda þrautabraut.
Þá tekur við beinn og breiður stígur sem nær alveg að Stakkahlið en þar mjókkar gangstéttin og gróðurinn reynir sitt besta til að yfirtaka stíginn.
Stígurinn við Miklatún hefur mátt muna fífil sinn fegurri og er löngu orðið tímabært að endurnýja hann.
Sem sagt margt á þessari leið hraðatefjandi og ég mun ekki fara hana aftur í bráð.

17. maí 2010

Hjólafréttir - nýtt fjöldamet, 64 hjólreiðamenn!

Sá 64 hjólreiðamenn í morgun. Sem er bæði met ársins og mesti fjöldi síðan talningar hófust.
Fór leiðina Elliðaárdalur - Fossvogsdalur - Hringbraut sem er u.þ.b. 10 km löng.
Hjólreiðamaður nr. 50 var Adda mágkona sem er skemmtileg og ótrúleg tilviljun því á síðasta ári þegar svipað fjöldamet var sett voru hún og Þórhallur nr. 49 og 50 (sjá þessa færslu).

Meðalhraðinn 19,9 km/klst (hámarks hraðinn rétt rúmlega 30 km/klst svo ég hef farið þetta á nokkuð jöfnum hraða). Ég á í smá vandræðum með gírana, þ.e. gírskiptirinn að framan er hættur að virka og er fastur í þyngsta gír. Sem er svo sem allt í lagi þó það væri betra að geta notað hann á leið upp brekkur. En staðreyndin er sú að ég nota ekki nema 5-6 gíra af þessum 24 gírum sem eru á hjólinu og vildi að ég væri með þyngri gíra í staðin fyrir alla þessa léttu.

5. maí 2010

Hjólafréttir - nýtt fjöldamet

Á fyrsta degin átaksins Hjólað í vinnuna er slegið fjöldamet ársins á leiðnni minni. Sá 17 hjólreiðamenn í morgun og eru það 10 fleiri en í gærmorgun og bættust 4 við fyrra metið.

30. apríl 2010

Vorið er komið

Sofnaði út frá fugla söng í gærkvöldi og vaknaði við hann í morgun. Mikið eru þeir duglegir fuglarnir.

27. apríl 2010

Húsnæðislán

1. maí 2006 kr. 31.453,-
1. maí 2007 kr. 33.105,-
1. maí 2008 kr. 35.760,-
1. maí 2009 kr. 41.131,-
1. maí 2010 kr. 44.607,-

Þetta eru afborganir af láni sem tekið var seinnihluta árs 2005 að upphæð kr. 7.000.000,-
Eftirstöðvar í dag með verðbótum eru kr. 9.969.582,-
Lánið er tekið hjá Kaupþing-banka þegar þeir buðu flotta vexti og áður en lán í erlendri mynt komu til (sem betur fer, þar sluppum við vel).

13. apríl 2010

Hjólafréttir - nýtt fjöldamet ársins

Sá 13 hjólreiðamenn í morgun.
Er að sjá sum andlit frá síðasta ári aftur og er gaman að því. Menn farnir að draga fram hjólin enda er veðrið einstaklega gott til hjólreiða nú um stundir.
Nú er spurning hvort óhætt sé orðið að taka nagladekkin undan hjólinu? Ætla að bíða aðeins því það er verið að spá kulda um næstu helgi þó ekki geri þeir ráð fyrir frosti hér á suðvesturhorninu.

11. apríl 2010

Hitt og þetta

Nýja fína rúmteppið sem tengdamamma saumaði handa okkur. Þið afsakið myndgæðin.

Fór út í gær og réðst á skriðsóleyna sem er í innkeyslunni á mörkum lóðanna. Get ekki annað en dáðst að dugnaði þessarar plöntu sem er ansi klók að koma sér fyrir. Var u.þ.b. klstu úti og náði að reita þennan flekk sem sést hér á myndinni. En sóleyin blessuð er út um allan garð hjá okkur svo það verður töluverð vinna að uppræta hana.



Hér er svo mynd af nóvemberkaktusinum í vinnunni minni sem ég var svo leið yfir að blómstraði ekki fyrir síðustu jól. Svona leit hann út þegar ég kom í vinnuna aftur eftir páskafrí.

28. mars 2010

Grein eftir Daða.

Daði bróðir skrifaði grein sem kom í blaðinu Politiken í Danmörku.

Og hér er slóð á frétt um greinina sem birtirs á mbl.is og þar er einnig slóð á pdf skjal af greininni.
Hér er líka slóð á viðtal við Daða sem kom í fréttatíma stöðvar 2 í gærkvöldi.

23. mars 2010

Garðvinna

Fékk lánaðnn þennan fína greinakurlara og kurlaði þær greinar sem ég klippti og sagaði af birkirunnunum í febrúar og líka rótarsprota af reynitrjám. Þetta var vikrilega skemmtileg vinna og útkoman fullur ruslapoki af kurli.

Að lokum klippti ég valdar greinar af birkitrjám úr framlóðinni og setti í vatn, ætli þær nái að springa út um páskana?

19. mars 2010

Hjólafréttir

Fjöldamet ársins frá 9. febrúar slegið og tvöfaldað! Sá hvorki fleiri né færri en 10 hjólreiðamenn í morgun og var þeim ágætlega dreift yfir leiðina. En oft er það þannig að ég sé engann fyrrihluta leiðarinnar en fleiri eftir því sem nær dregur miðbænum.

15. mars 2010

Hrund og húfan

Hrund með hrikalega stóra húfu sem ég prjónaði (hélt ég væri að prjóna minni húfu fyrir Þórhall bróður í stað þeirrar sem ég gaf honum í jólagjöf en þessi er alveg jafn stór). Er núna með hugmyndir um að þæfa hana og breyta í tehettu eða allavega sjá hvernig hún kemur út sem slík. En Hrund er algjörlega að selja hana á þessari mynd, virðist smell passa á hana og er svaka flott.

10. mars 2010

Hlið

Elías er búin að hanna og smíða hlið sem mun prýða innganginn í garðinn okkar.

Fyrst var ætlunin að hafa rimlana beint upp eins og sést á einni myndinni. Svo var prófað að setja þá svona á ská og við féllum algjörlega fyrir því. Það eina sem ekki er handsmíðaða af Elíasi eru spjótin efst.

Nú á bara eftir að láta sandblása það og húða því ekki viljum við að það ryðgi.






5. mars 2010

Ný slóð

Bætti inni nýrri slóð hjá hjólabloggurum sem heitir "Hjólaðu maður". Á þeirri síðu er flipi sem heitir "Ástand stíga" og er ætlunin að halda utan um snjómokstur og færð á stígum með comment-kerfi.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...