20. febrúar 2022

Ferðalag úr sundahverfi upp í Grafarvog og smá um hjólateljara.

 Út af veðri og færð hef ég ekki hitt ömmubarnið mitt eins oft og ég hefði viljað. Þess vegna ákvað ég í gærmorgun að leggja af stað á hjólinu til að heimsækja fólkið mitt. Það var rok, 9 m/s og 18 m/s í vindhviðum skv. vegagerðinni og skafrenningur svo ég var meira en tilbúin til að hætta við ferðina og snúa við ef mér litist ekki á færð og veður. En reynslan hefur kennt mér að oft eru meiri læti í veðrinu þegar maður er innandyra en utan (eins kjánalega og það hjólmar).

Svo ég lagði af stað. Það hefur ekki snjóað síðan á fimmtudaginn svo það hefur allavega ekki bætt í snjóinn. Ferðin gekk vel alveg þar til ég kom að bútnum sem liggur frá Barðavogi niður að Sæbraut, fyrir neðan leikskólann Steinahlíð. Þar hefur eitthvað stórundarlegt átt sér stað í gærdag, því þegar ég hjólaði þar í gærmorgun var færðin fín. En á leiðinni heim var kominn snjór á stíginn eins og tæki hefði farið þarna um og hugsanlega farið utan í ruðningara og dreift snjó yfir stíginn.

Allavega þurfti ég að teyma hjólið yfir þennan stíg. En stígurinn eftir það var fínn og alveg niður að Knarrarvogi. En þá kom í ljós að nokkuð hafði skafið yfir hjólastíginn sem heiti Kelduleið skv. Borgarvefsjá svo ég fór yfir á göngustíginn. Það var enginn annar á ferðinni svo það kom ekki að sök.

Þarna hinsvegar var ég farin að finna fyrir rokinu, enda mótvindur og svæðið nokkuð bert. En leiðin upp í Grafarvog var vel fær, af og til hafði snjór fokið í litla skafla yfir stíginn sem annaðhvort var furðu auðvelt að hjóla í gegnum eða ég leiddið hjólið yfir.

Svo kem ég að hringtorginu þar sem Sævarhöfði og Naustabryggja mætast.

Myndin er tekin deginum áður svo ég vissi hverju ég átt i von á í þetta skiptið. Stígurinn er sem sagt opinn þar sem örin er á þessari mynd hér:
Það er allavega betra en að þurfa að klöngrast yfir snjóbakkann sem liggur yfir stíginn sem tekur við þarna beint á móti.
Leiðin hét svo áfram að vera greið alla leið að Gullinbrú. Brúin sjálf (þ.e. göngubrúin undir bílabrúnni) var ekki neitt sérstaklega skemmtileg. Tækin fara líkega ekki yfir brúna sjálfa því það eru hraukar í sitthvorum enda brúarinnar, þó ekki það stórir að maður kemst alveg yfir.

Svo færðin var töluvert betri en ég þorði að vona og mér gekk bara vel að komast í heimsókn og heim aftur. Í bakaleiðinni hafði snjó skafið enn meira yfir stígana, en hann er súper léttur og oft furðu auðvelt að hjóla í gegnum hann, þó stundum þyrfti ég líka að stíga af hjólinu og teyma í gegnum skaflana.
Ég var rétt rúmar 30 mínútur hvora leið, sem ég fer á um 15-20 mínútum þegar ekki er snjór.

En þá að hjólateljurum. Borgin hefur komið teljurum fyrir víða um borgina (telja bæði hjólandi og gangandi). 

Hér er teljarinn á Geirsnefi, milli appelsínugulu brúnna. Hann taldi í gær 7 að fara í austur átt og 7 að fara í vesturátt (ég hef tekið út tölur um gangandi). 
En það er eins og hann hafi ekki talið mig þegar ég hjólaði þarna í gær. Ég hef litað gular tölur sem eru nálægt tímanum sem ég var á ferðinni, en það er samt öfugt við í hvaða átt ég er að ferðast.

Svo er hér teljarinn við Gullinbrú. Hann taldi í gær 7 að fara í austur og 4 í vestur. 

Talningin á mér er lituð græn í excelskjalinu og stemmir alveg við þann tíma sem ég var á ferðinni.
Ég er bara að velta fyrir mér hvort teljararnir eigi í vandræðum með talningu þegar svona mikill snjór er. Nú veit ég ekki hvernig þeir telja. En þegar ég á sínum tíma hjólaði fram hjá teljaranum við Suðurlandsbraut sem staðsettur er nálægt Kringlumýrarbrautinni, þessi sem sýnir talninguna, þá náði hann ekki að telja þegar mikill snjór eða klaki var yfir stígnum.

Meira um snjó

Febrúar hefur verið óvenju snjóþungur og vindasamur. Hver lægðin á fætur annari kemur yfir landið með roki og látum. Síminn minn er orðinn fullur af snjómyndum því bæði er hann fallegur en líka er hann til ama, sérstaklega þegar hann hindrar för. 

Ég ætla mér að henda hérna inn nokkrum myndum frá liðinni viku og skrifa eitthvað um það sem sést á myndunum.

---

Fyrst eru hér myndir úr innkeyrslunni hjá okkur, teknar mánudaginn 14. febrúar. Mér finnst ekki leiðinlegt að moka snjó og reyni að fara út jafn óðum og það snjóar til að moka. Reynslan hefur kennt mér að snjórinn er léttastur að moka fyrst eftir að hann hefur fallið. Það hafði snjóað hressilega um nóttina, eins og sést á ljósunum. Svo vel vildi til að ég var að vinna heima þennan dag og mokaði því innkeyrsluna í stað þess að ferðast í vinnuna. 




Svona leit þetta út seinna um daginn. Ég átti orðið í vandræðum með að finna stað til að moka snjónum á. Helsti staðurinn er hinumegin við fyrsta tréð vinstramegin á myndinni.
---
15. febrúar. Vann líka heima þennan dag, en þurfti að skreppa í Ármúlann. Ákvað að taka hjólið með þó ég ætti allt eins von á því að þurfa að teyma það mikinn hluta af leiðinni.
Hér horfi ég út götuna heima hjá mér. Merkilegt nokk þá er vel hægt að hjóla þarna þar sem snjórinn er þjappaður eftir fólk á göngu. Svolítið þvottabretti en vel fært.

---
Þessi mynd er tekin upp gangstéttina við Holtaveginn. Þarna er snjórinn í saltpækli og ekki hægt að hjóla. Þessi gangstétt er oftast illfær þegar snjór er af því það gusast alltaf af götunni upp á stíginn og drullan af götunni er þannig að bæði er leiðinlegt að ganga í því og hjóla.
---
Hér er gangstéttin við Holtaveg niður að Langholtsskóla og Laugardal. Þarna var snjórinn vel þjappaður og ágætis hjólafæri.  En takið eftir öllum bílunum. Það var bílaröð bæði upp og niður, greinilegt að mörgum börnum er skuttlað í skólann og það á ekki bara við þegar mikill snjór er. Þetta virðist vera svona alla morgna. Varla búa svona mörg börn það langt frá skólanum að þau geta ekki gengið í skólann?
---
Hér er ég við hliðina á fjölskyldugarðinum. Stígarnir skafðir og fínir.
---
Hér eru stígarnir meðfram Suðurlandsbraut. Líka skafðir og fínir.
---
Það kom mér skemmtilega á óvart að búið var að skafa bútinn upp á Suðurlandsbraut sem ég þurfti einmitt að fara. Teymdi samt hjólið þarna upp.
---
Komin upp að gatnamótunum, þau eru líka allt í lagi.
---
Það sem tekur við ekki alveg jafn skemmtilegt, en ekkert sem kemur á óvart. Gatnamótin Fellsmúli-Ármúli voru líka ömurleg, full af snjó og erfitt að komast um. Ég var samt alls ekki ein um að vera þarna fótgangandi.
---
Ekkert formlegt hjólastæði á áfangastað, en þá er bara að finna sér staur til að festa hjólið við.
---
Þegar ég kom til baka var búið að skafa götuna heima hjá mér og það var gert þannig að gangstéttin var ófær svo ég þurfti að fara götuna, en hún var líka illfær og engin leið að hjóla hana.

---
Hjólað heim úr vinnuni, miðvikudaginn 16. febrúar
Hér er ég meðfram Suðurlandsbrautinni, komin yfir Skeiðarvog og að nálgast Langholtsveg. Stígurinn bara nokkuð fínn. Ég hjóla frekar hægt þessa dagana og margir taka fram úr mér.
---
Barðavogur með Sæbraut á hægri hönd. Mjög ánægjulegt að sjá þennan bút svona vel hreinsaðann. Hann á það til að gleymast eða vera sleppt úr þó hann sé á aðalleið.
---
Og svo var yndislegt að koma á auðan stíg meðfram Sæbrautinni.

Af því þetta er orðinn svo langur póstur þá ætla ég að segja þetta gott í bili. Á þó dágóðann slatta af myndum eftir bæði frá því í gær og fyrradag sem mig langar líka að setja hér inn. En held það sé heppilegra að gera í nýrri færslu.


13. febrúar 2022

Snjómokstur í Reykjavík, febrúar 2022

Þeir sem þekkja mig vita að ég vil helst ekki keyra bíl. Ef ég þarf að fara eitthvað þá fer ég miklu frekar á hjólinu en bílnum. Þetta er af því mér finnst leiðinlegt að keyra bíl og mér finnst gaman að hjóla. Þetta á líka við á veturnar, og ég treysti ekki bílnum í vetrarfærð. Hjólið hefur reynst mér miklu betur, er bæði stöðugra og þægilegra að nota í hálku og mátulegum snjó.

Almennt hefur snjóhreinsun batnað í Reykjavík, þegar snjóar hóflega mikið. Borgin er með áætlun sem virðist nokkurvegin halda við þær aðstæður. Það er mikill kostur að geta treyst því að ákveðin leið er hreinsuð áður en þú ferð af stað. Það var ekki þannig fyrir 10 árum síðan.

Hér má sjá kort yfir snjóhreinsun stíga tekið af borgarvefsja.is 13.02.2022:


Ég er svo heppin að komast fljótlega heiman frá mér á stíg í forgangi svo ég þarf ekki lengi að þjösnast í gegnum snjóskafla áður en ég kemst á hreinsaðan stíg. Það snjóar ekkert of oft eða mikið í borginni, en svo til á hverju ári eru nokkrir dagar þar sem snjóar þónokkuð og jafnvel nokkra daga í röð. Borgin virðist aldrei vera undir það búin varðandi snjóhreinsun á stígum. 

Hér eru myndir frá því núna í febrúar, með útskýringum. Í þessu tilviki segja myndir ekki allt en ég mun reyna að útskýra aðstæður með texta.

Mynd 1. Tekin 3. febrúar (fimmtudagur), seinnipartinn.

Þarna er ég á leiðinni úr Skeifunni upp í Grafarvog með vörur sem ég var að kaupa fyrir dóttur mína. Þarna er stígurinn vel hreinsaðu, veðrið fallegt og fínt að hjóla. 


Mynd 2. Sami dagur, sama ferð. Stígurinn hjá Bryggjuhverfinu er skafinn og ágætt að hjóla hann. Snjórinn vel þjappaður og það er greinilega töluverð umferð um þennan stíg bæði hjólandi og gangandi.


Mynd 3. Tekin 4. febrúar (föstudagur) að morgni, ég á leið til vinnu.

Þetta er stígurinn sem liggur samsíða Suðurlandsbraut. Hægra megin er göngustígurinn og hjólastígurinn er til vinsti. Hjólastígurinn er alls ekki nógu vel hreinsaður. Umferðin á móti er með næstum auðan stíg, en mín megin er snjór/slabb. Ég held að salti sé stráð yfir stíginn sem er flott ef snjórinn er vel hreinsaður af fyrst. En mín reynsla er sú að snjór og salt fer ekki vel saman. Úr því verður einhverskonar snjóleðja sem hjólið á það til að skrika í. Ef ekki næst að hreinsa snjóinn í burtu væri betra (að mínu mati) að sleppa saltinu. Það er ekki vandamál að hjóla í hreinum snjó samanber mynd 2.

Mynd 4 og 5. Tekin 6. febrúar (sunnudagur), fyrir hádegi.

Nú þurfti ég aftur að fara upp í Grafarvog til dóttur minnar. Ferðin var ekki eins skemmtileg og þegar ég fór þetta 3. febrúar. Stígurinn við Sævarhöfða var ófær og þurfti ég að fara út á götuna. Ég er ekki mjög huguð manneskja og því líður mér ekki vel við þær aðstæður. Ökumenn eiga það til að aka ansi hratt þarna. Á myndinni er ég komin af götunni við hringtorgið Sævarhöfði-Naustabryggja. Hér hefur snjónum af götunni verið mokar beint upp á stíginn svo notendur stígsins verða að klöngrast yfir snjóbunka til að komast leiðar sinnar  


Mynd 6. tekin sama dag. 
Þarna er ég á heimleið úr Grafarvoginum. Myndin sýnir stíginn sem er að mínu mati ófær á hjóli. Hann er þó skárri þarna en aðeins seinna og ég fór aftur út á götuna til að komast leiðar minnar. Augljóst er að snjór af götunni gusast upp á stíginn þegar gatan er skafin. Þar sem þetta er aðal hjólaleiðin upp í Grafarvog hefði maður haldið að það væri augljóst að halda ætti þessum stíg færum. En hann er ekki í forgangi hjá borginni. Sendi kvörtun til borgarinnar í gegnum ábendingasíðu og fékk það svar til baka að erfitt væri að halda stígnum hreinum út af því að þegar gatan er hreinsuð þá fer snjórinn upp á stíginn. Þetta finnst mér ekkert annað en léleg afsökun af borg sem ætlar sér að vera hjólaborg og vill að fólk minnki bílanotkun.

Mynd 7. Tekin sama dag.
Þarna er ég enn á heimleið en komin á stíg sem er vel hreinsaður og allt annað líf að ferðast eftir (á myndinni horfi ég til baka í átt að stígnum sem er ófær).

Mynd 8. Tekin sama dag, seinnipartinn.
Átti aftur leið upp í Grafarvog. Stígurinn með fram Sævarhöfða enn ófær en núna var búið að skafa niður ruðninginn sem fór fyrir stíginn. Af hverju stígurinn var ekki hreinsaður í leiðinni er mér fyrirmunað að skilja.

Mynd 9. Tekin 9. febrúar (miðvikudagur) að morgni.
Hér er ég á leið til vinnu. Aðfaranótt mánudags var mikil óveðursspá fyrir Reykjavík (og reyndar landið all). Ekki varð eins mikið úr veðrinu og spáð hafði verið en þó snjóaði nokkuð og rigndi líka. Á mánudaginn tók ég þá ákvörðun að labba í vinnuna. Aðfararnótt þriðjudags snjóaði líka og ákvað ég því að nota tímann til að moka innkeyrsluna hjá mér frekar en að hjóla (var að vinna heima svo ég hefði hvort sem er hjólað í hring).
En á mivikudag hjólaði ég af stað. Hér er ég með Sæbraut á vinstri hönd. Er á stígnum við Barðavog. Eins og sést þá hefur snjónum verið mokað af götunni upp á stíginn og ekki gert ráð fyrir að nokkur þurfi að komast þessa leið gangandi eða  hjólandi. Alltaf mjög pirrandi að rekast á svona vinnubrögð.

Mynd 10. Tekin sama dag.
Það sem ég ætlaði að taka mynda af hér var einstaklega vel hreinsuð stígamót. Af því að eftir Barðavoginn er ég komin á stíg sem er lang oftast vel hreinsaður, enda er hann í fyrsta forgangi (sem stígurinn við Barðavog er reyndar líka, en það virðist oft gleymast).

Mynd 11. Tekin 10. febrúar (fimmtudagur) að morgni.
Hér má sjá gatnamótin sem ég ætlaði að taka mynd af deginum áður. Þau voru ekki alveg jafn fín í dag, en samt betri en flest stígamót (gatnamót) sem maður ferðast um. Engir hraukar að hjóla í gegnum, þetta er hægt krakkar og ætti að taka til fyrirmyndar.

Mynd 12. Tekin sama dag.
Það fór að snjóa, þétt og falleg snjókoma, stóðst ekki mátið að taka mynd. Stígurinn ekkert frábær, en það slapp til.

Mynd 13. Tekin sama dag.
Hérna er ég komin af aðalstígnum. Þessi stígur er ekki saltaður, en skafinn og það er mikið betra að hjóla hann. 

Mynd 14. Tekin 11. febúar (fimmtudagur) að morgni. Winter bike to work day.
Sami stígur og á mynd 10. Ekki jafn skemmtilegt að hjóla hann í dag. Það er augljóst að tæki hefur ekið um stíginn en ekki skafið hann. Takið eftir hjólfarinu eftir hjól sem hefur farið þarna á undan mér, það ætti að vera í beinni línu en af því snjórinn er þetta djúpur og það hefur verið saltað í hann þá skrikar hjólið til. Þetta er ekki boðlegt að mínu mati á stíg sem á að vera í forgangsmokstri.

Mynd 12. Tekin sama dag.
Hér er ég á stígnum meðfram Suðurlandsbraut, á svipuðum stað og mynd 3 er tekin. Hér er aftur göngustígur til hægri og hjólastígur til vinstri. Helmingurinn af hjólastígnum er auður, hinn helmingurinn ekki. Hjólaði á móti umferð og skipti um hjólarein þegar einhver kom á móti. Þetta er einfaldlega bara ekki nógu vel gert.

Í lokin eru hér slóðir á pósta sem ég hef skrifað um sjó og snjóhreinsun í gegnum tíðina:

Jan 2015 Færðin
 

1. febrúar 2022

Hjólað í janúar 2022

Hjólaði samtals 195 km í mánuðinum þar af 138 til og frá vinnu. Hjólaði alla vinnudaga mánaðarins.

Sá að meðaltali (á dag þá daga sem ég hjólaði til vinnu): 4 á hjóli, 1 á hlaupahjóli og 8 gangandi.
Fjóldamet hjólandi í mánuðinum er 8 á hjóli en fæstir voru 2.

Heildar talning í mánuðinum var: 94 á hjóli, 23 á hlaupahjóli og 162 gangandi.

Til gamans má geta þess að ég ók bíl 1x þennan mánuð (var farþegi í bíl líklega 4x). 

Það er svo mikill misskilningur að það sé ekki hægt að hjóla í Reykjavík allan ársins hring. Sérstaklega núna þegar (a.m.k. það sem af er vetri) er hægt að treysta því að stígar séu snjóhreinsaðir skv. áætlun. Nú tala ég augljóslega aðeins um þá stíga sem ég ferðast um. En það er ekki svo mörg ár síðan að ég var alltaf tuðandi í borginni út af því að stígur sem átti að vera í forgang og búið að hreinsa áður en ég lagði af stað til vinnu var ennþá fullur af sjó og því illfær. Hjólaði einu sinni á Sæbrautinni af því stígurinn var gjörsamlega ófær, bæði gangandi og hjólandi því snjónum hafði verið rutt af götunni upp á stíginn. Ég hafði ekki gaman að þeim hjólatúr.Við höfum náð miklum framförum undanfarinn áratug og við ættum bara að bæta í og gera enn betur.

Svona lítur Strava hitikortið mitt út núna:


og það sem af er þessu ári:



Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...