31. janúar 2006

30. janúar 2006

Múrbrjótar

Þegar gengið er upp eða niður Laugarveginn (í Rvk) getur verið erfitt að komast leiðar sinnar þar sem fólk er gjarnan út um allt í hægagangi og tiltölulega mikið fyrir.

Við þessar aðstæður koma svokallaðir múrbrjótar að góðum notum. Múrbrjótar þjóna þeim tilgangi að ganga á undan og opna leiðina, gera hana greiðfæra fyrir þann sem kemur á eftir. Múrbrjótar eru mis góðir og um daginn lenti ég á einum sem var frekar erfiður, en þó skárri en ekki neitt. Hann gekk helst til of hægt og svingaði um gangstéttina þannig að ég það þurfti að hafa einbeitinguna í lagi til að nýta krafta hans. Aðrir eru afburðagóðir. Þegar gengið er á eftir múrbrjót í hæsta gæðaflokki væri hægt að hafa bók í hönd og lesa, svo áhyggjulaust rennur maður í gegnum mannhafið.

Oftast veit þetta fólk ekki af því að það sinnir þessu hlutverki, en vil ég nota þetta tækifæri til að þakka þeim sem sinna þessu af kostgæfni fyrir vel unnin störf!

27. janúar 2006

Að vera vel giftur!

Nú verð ég bara að segja ykkur. Svolítið dásamlegt hefur gerst.
Þið kæru lesendur munið líklegast eftir því þegar ég kvartaði sáran undan vandræðum vegna þess hve erfitt er að finna kvöldmat almennt og hvað þá eitthvað sem bragð er að.

Nú það sem gerðist er það að Elías tók til í einum eldhússkápnum þar sem við geymum ýmsar bækur og þar á meðal eru matreiðslubækur. Þar rekur hann augun í bók sem inniheldur franska matargerðarlist. Þetta er lítil bók sem lítið fer fyrir, en það hefur komið í ljós að hún geymir gullmola. Nú þegar hafa verið eldaðir 5 réttir úr þessari bók, hver öðrum betri. Í gær fengum við lauksúpu eftir að hafa etið súfflei (hef ekki græna glóru hvernig þetta er skrifað í alvörunni) í forrétt. Nammi namm þvílíkt lostæti. Nú bíður maður spenntur að sjá hvað verður galdrað næst upp úr bókinni góðu.

Það sem sagt kom í ljós að það er ekki þörf að því að ráða sér kokk í eldamennskuna, það sem þarf er góður eiginmaður : )

26. janúar 2006

Miðdegisrúntur.

Tók mér miðdegisrúnt um borgina og nærsveitir í dag. Fékk leyfi í vinnunni og lagði land undir fót. Hófst ferðin á u.þ.b. 10 mín bið eftir vagni S1 rétt við Þjóðleikhúsið, en þaðan lá leiðin niður á Lækjartorg og framhjá MR og tjörninni. Útsýnið var fallegt í vetrarhitanum. Síðan var farið um nýja fína mannvirkið milli Landspítala og flugvallar og þvílíkt og annað eins mannvirki. Strætóinn nýtti sér vegakerfið til hlýtar og fór flestar þær slaufur sem boðið var uppá - ofsalega skemmtilegt allt saman. Ferðin endaði í nágrannabænum Kópavogi eftir svolitla útsýniskeyrslu, en þá tók við göngutúr sem ekki var af verri endanum og laðaði fram minningar frá æskuárunum því þennan spotta hefur maður ósjaldan gengið í gegnum tíðina. Hamraborgin hefur lítið sem ekkert breyst byggingalega séð. En verslanirnar eru ekki þær sömu, en það yljaði hjartaræturnar að sjá að verslunin Mólí er enn á lífi þó hún hafi fært sig úr stað.

En því miður var annar tilgangur með ferðinni en skoðunarferð og upprifjun minninga því einmitt þarna í Hamraborginni er tannlæknirinn minn og þangað lá leið mín í þetta skiptið.

25. janúar 2006

Hver er venjulegur?

Lengi vel hélt ég að ég væri eins venjuleg og hægt væri að vera. Auðvitað er fyrir mér allar mínar venjur, kækir og siðir "venjulegt".

En þá er það spurningin hvað er venjulegt?
- er venjulegt að greiða á sér hárið á hverjum morgni og bursta tennur?
- er venjulegt að vilja ekki snýta sér því það er svo ógeðslegt?
- er venjulegt að fara út að moka snjó áður en farið er í vinnuna?
- er venjulegt að vinna hjá ríkinu og fá ríkislaun og vera bara sáttur við það?
- er venjulegt að eiga oftast í vandræðum með kvöldmatinn?
- er venjulegt að vilja helst skríða upp í rúm á kvöldin um kl 10?

Undanfarið hafa menn verið að segja mér (í óspurðum fréttum) að ég sé ekki venjuleg og þannig hafi ég aldrei verið. Augu mín hafa verið að opnast fyrir þessu.
t.d. er ég ekki venjuleg á lengdina, ég er ekki með venjulega sjón. Líklegast er ekki venjulegt þetta með snjómoksturinn og fleira væri hægt að tína til ef menn rýna í hlutina ;)

En í þessari trú minni að ég væri eins venjuleg og hægt væri að vera þá tók ég persónulega til mín það sem fundið var út í könnunum. Þið vitið meðal Íslendingur eyðir svo og svo miklu í þetta og hitt, kannanir sýna að meirihluti gerir svona og svona - og ég gat orðið voða sár ef verið var að herma upp á mig (meðal manneskjuna) eitthvað sem ekki átti við.

Ég skal nú bara segja ykkur það að það er miklu betra að vera ekki venjulegur. Nú þegar ég veit það þá get ég leyft sérvisku minni að blómstra og dafna - því ef öllu er á botninn hvolft er það þá ekki venjulegra að vera pínulítið skrítinn?

24. janúar 2006

Nei þetta gengur ekki!

Það er langt liðið á daginn og ég er ekkert farin að blogga ennþá.

Enda hef ég svo sem ekkert fram að færa í þetta skiptið.

Vitur maður sagði eitt sinn: Blogg eiga að vera stutt!

23. janúar 2006

Saklaus vörn á skóna mína...


Keypti mér vörn á skóna mína í síðustu viku. Þetta er svona spreybrúsi með einhverju undraefni í sem á að vera betra en silíkonið sem notað hefur verið og á að passa sérstaklega vel upp á skóna mína í snjó og bleytu skv. sölumanni.

Þegar ég kom heim las ég utan á umbúðirnar til að átta mig á því hvernig best væri að bera sig að við þetta. Það kom svolítið fát á mig við lesturinn: "Notið aðeins utandyra. Spreyið aðeins í stutta stund, getur valdið skemmdum á öndunarvegi. Látið þorna úti. Ekki spreyja þar sem gólfefni er undir því gólfið verður hættulega sleypt. Látið ekki komast í snertingu við húð. Eitthvað var líka minnst á augu man ekki alveg hvernig það hljómaði." Þetta er það sem ég man í fljótu bragði. Auðvitað voru ekki leiðbeiningar á íslensku og það var ekki auðvelt að lesa heldur því textinn var bæði smár og þannig staðsettur á brúsanum að það þurfti stöðugt að snúa honum til að sjá hvað kom næst. Við lesturinn hljómaði þetta sem stórhættulegt efni og mesta furða að hver sem er geti keypt án þess að fá einhverskonar kennslu/leiðbeiningar um meðhöndlun.

Ég svoddan skræfa með þessa hluti. Það hefur nokkrum sinnum komið fyrir að ég kaupi eitthvað hreinsiefni fyrir heimilið, en eftir að lesa aftan á það þá þori ég ekki fyrir mitt litla líf að nota það.

En ég var ógurleg hetja með skóvörnina mína. Fór út og spreyjað eins lengi og ég gat haldið niðrí mér andanum, hljóp þá inn og andaði og aftur út til að spreyja hinn skóinn. Verðlaunin eru að skórnir mínir eru glansandi glæsilegir og vel varðir.

20. janúar 2006

Notendanafn og lykilorð

Er nokkuð meira pirrandi en öll þessi notendanöfn, aðgangs- og lykilorð sem maður þarf að muna og breyta og bæta í sífellu. Bara í vinnunni þarf ég að hafa , kunna og muna a.m.k. 8 aðgangsorð og jafnmörg lykilorð. Og ekki nóg með það því nokkrum af þeim þarf að breyta reglulega og jafnvel strangar reglur um að hitt og þetta megi ekki gera í því lykilorði sem breytt er í (það má t.d. ekki líkjast því lykilorð sem breytt er úr).

Til að bæta gráu ofan á svart hafa bankarnir tekið upp á þeim óskunda að heimta 4 stafa öryggisnúmer þegar millifært er úr heimabankunum. Það er sem sagt ekki nóg að muna aðgangs- og lykilorði heldur þarf líka öryggisnúmerið að fylgja. Jú, jú auðvitað er þetta allt gert til að tryggja öryggi og að óprúttnir nágungar eigi erfiðara með að stela frá þér. En þegar maður sjálfur er alltaf að gleyma þessum númerum þá er það verra. Sérstklega það sem ekki er notað mjög oft.

Svo eru það pin-númer á visa- og debetkortum og auðvitað kennitölurnar.

Í raun er það ótrúlegt hvað hægt er að muna mikið af þessu öllu saman.

19. janúar 2006

Prjónafiðringur

Nú er ég komin með í puttana prjónafiðring. Er meira að segja búin að finna nokkrar prjónauppskriftir sem mig langar að fara eftir til að breyta einföldum þræði í flík. En eitthvað gengur treglega að koma sér í búð og kaupa þráðinn. Skrítið hvernig þetta er stundum. En í dag ætti ég að komast eftir vinnu, ég hef enga afsökun aðra en leti við að fara út úr húsi eftir að hafa komist inn í hlýjuna heima hjá mér.

Æ, það getur verið svo notarlegt að setjast í stófann og kveikja á sjónvarpinu og gleyma sér í ammrískum þáttum - en þá er líka einmitt svo sniðugt að hafa eitthvað á prjónunum.

Fleiri myndir

Nú hef ég sett inn myndir frá því ég var síðast í Danmörku, en það var einmitt í vor þegar Daði og Iben héldu sameiginlegt afmæli í tilefni þess að þau urðu bæði 30 ára það árið og að Daði útskrifaðist.
Kíkið endilega á þetta

18. janúar 2006

Fjallaferð



Setti inn myndir af frækinni fjallaferð á hina síðuna mína sem farin var seinnipart síðasta sumars. Þetta var mjög svo skemmtileg dagsferð og verður vonandi endurtekin. Að sjálfsögðu fengu leiðangursmenn allar veðurtýpur og auðvitað var það þannig að þegar menn tóku sér göngu að þá fór að hellirigna. Þetta skemmtilega veður varð til þess að sumir urðu blauti og aðrir kaldir og enn aðrir blautir og kaldir. Til að sjá fleir myndir úr þessari skemmtilegu ferð smellið hér!

17. janúar 2006

Meiri snjó, meiri snjó, meiri snjó.

Fróðir menn segja mér að það þýði ekkert að segjast vera bloggari og skrifa svo aldrei neitt. Líklegast er þetta rétt hjá þeim og er ég hér nú að gera það sem ég get til að halda titlinum. Verra er að efni bloggsins er ekki mótað í huga mér þ.e. ég hef ekki frá neinu að segja.

En hvað gerir maður þá? Nú maður deyr ekki ráðalaus en segir frá einhverju eins og snjómokstri morgunsins því nú er gósentíð hins ástíðufulla snjómokara. Snjórinn í morgun var af annari gerð en verið hefur undanfarið. Nú var ekki lengur um að ræða þennan fislétta púðursnjó sem fýkur í allar áttir við minnstu hreyfingu, það var aðeins meiri þyngd í honum þessum þó enn eimi eftir af léttleikanum.

Í gær náði ég að moka 4x og uppskar harðsperrur í þjóhnöppum í morgun. Við mokuðum Litla-ljót (lítill bíll sem við fengum sem uppígreiðslu upp í Mustang og hefur ekki verið hreyfður síðan áður en fór að snjóa) út úr snjóhúsi sínu. Það var hvorki meira né minna en 30 cm snjólag ofan á honum og eitthvað svipað allt um kring. En merkilegt nokk bæði fór bíllinn í gang og moksturinn (og skafið, sem er að sjálfsögðu ekki eins merkilegt enda sá Elías um þá hlið málsins) gekk vel. Það var svolítið skondið að sjá í auða götuna undir bílnum á eftir.

Og þannig enda snjófréttir dagsins, vona að allir hafi notið vel.

13. janúar 2006

Sitt lítið af hverju.

Hafa fleiri tekið eftir því en ég hvernig heimurinn breytist þegar snjóar? Fólk fer allt í einu að heilsast á götum úti og menn verða næstum því kurteisir í umferðinni. Það er allt einhvernvegin öfugt.
Á hverjum vetri kvíði ég snjónum og kuldanum sem fylgir honum en þegar hann kemur þá er bara gaman. Ég elska að moka snjó. Verð að viðurkenna að ég er klikkaði nágranninn sem er komin út með skófluna um leið og fyrsta snjókornið fellur. Í morgun var sérstaklega gaman að moka. Snjórinn svona léttur en samt fullt af honum og enginn búin að trampa hann niður.

Hjólafréttir: Sá för eftir hjól í morgun á leið í strætóskýlið og einn hjólreiðamann við hjólaiðju á meðan ég beið eftir strætó. Verður þetta að teljast frétt þar sem snjórinn er a.m.k. 10 cm djúpur og ekki gott að athafnasig á þessum fákum við þær aðstæðum.

Strætófréttir: Strætó var 25 mín of seinn að sækja mig í morgun (ekki mikið að marka auglýsingarnar frá þeim þar sem þeir vildu meina að sá stóri guli komist alltaf leiðar sinnar). Vagninn var líka á frekar lélegum dekkjum að því er virtist. Átti í mesta basli við að taka af stað og stoppa.
Svolítið tuð: Svo skil ég ekki af hverju hann hleypir fólki ekki út strax þegar hann kemur að Hlemmi. Ég tek strætó númer S2 og Helmmur er hans endastöð, hann sem sagt kemur úr austurbænum niður Laugarveginn og að Hlemmi og þarf að fara hring framhjá Hlemmi til hægri á ljósunum við Snorrabraut og svo aftur til hægri á mótum Hverfisgötu og Snorrabrautar til að komast að sínu stæði. Einn og einn vagnstjóri hleypir fólki út strax þegar komið er að Hlemmi í fyrra skiptið, en flestir aka hringinn áður en nokkrum fær að komast út. Frekar asnalegt.

12. janúar 2006

Kattavandræði


Nú á ég í vandræðum. Ekki vegna Brands (sem er kötturinn hennar Hrundar) heldur vegna kattarins sem býr (var næstum hætt við að nota þetta orðið "býr" og setja í staðinn "á heima" því ybbsilonið þvældist fyrir mér, en svo sá ég að orðiðr "bír" er asnalegt svo ég ákvað að nota "býr" eftir allt saman) fyrir ofan mig (stór gulur köttur).

Svo ég byrji (argh þessi ybbsilon allstaðar) nú á byrjuninni þá er það þannig að hann hefur verið ansi duglegur við að koma inn til okkar og éta matinn hans Brands og bara almennt láta fara vel um sig. En við á móti ansi dugleg við að reka hann út þegar við náum honum við þessa iðju og að vera svolítið grimm við hann til að fæla hann frá því að koma aftur. Það er skemmst frá því að segja að það dugar ekki til. (Brandi gæti ekki verið meira sama um þetta allt saman)

En nú hefur eigandi kattarins biðlað til okkar um að vera nú kannski smá betri við hann þar sem hinn kötturinn á heimilinu (pínulítil læða) er vond við þann stóra og rekur hann ítrekað í burtu. Þeim kemur víst almennt illa saman.

Í morgun var sá stóri guli í eldhússtólnum og horfði á mig biðjandi augum. Ég hafði ekki hjarta í mér til að reka hann út. En þúst ég ætla mér ekki að taka hann að mér...
Hvernig er best að tækla svona mál eiginlega. Ég er að komast á þá skoðun að halda áfram eins og verið hefur því ef við gerum ekkert við því að hann sé alltaf hjá okkur þá endar með því að hann telur sig eiga heima í okkar íbúð en ekki þeirra og það vil ég ekki.

Nei þetta er rétt ég held bara áfram að reka hann út eins og áður.

ps. myndir fengnar úr myndasafni veraldarvefsins og tengjast efni bloggsins ekki beint

10. janúar 2006

Kvöldmatur

Eilíft vandamál á mínu heimili er kvöldmatur. Hvað á að hafa í kvöldmatinn? Hver á að elda? Hvað er til?
Það er ekki til í mér tilfinning fyrir matselt. Þegar ég skoða matreiðslubækur gæti ég rétt eins verið að skoða símaskrána með myndum þetta bara höfðar ekki til mín. Hinsvegar finnst mér gaman að borða góðan mat og dáist að fólki sem ekki bara getur eldað góðan mat heldur líka galdrað hann úr svo til engu, að því stundum virðist. Og heyra suma tala um hvað þetta og hitt sé ekkert mál að elda. Það sem er ekkert mál að mínu mati að elda er t.d. að hita pylsur og spæla egg.
Mikið vildi ég hafa efni á því að ráða kokk til að sjá um kvöldmatinn, kaupa inn, plana hvað á að vera og elda. Þá væri lífið dásamlegt...

Að blogga

Ég er ekki viss um að það henti mér að blogga svona. Ég er svo hræðilega meðvituð um það að það geta allir lesið það sem ég skrifa hér. En samt er líka eitthvað skemmtilegt við það.
Núna t.d. langar mig að skrifa eitthvað en ég veit bara ekki hvað það ætti að vera.

Hurðu hvernig setur maður mynd inn á bloggið?

9. janúar 2006

Líf eftir dauðann

Rak augun í könnun sem greint var frá í Fréttablaðinu í morgun um viðhorf okkar Íslendinga til lífs eftir dauðann. Fyrirsögnin var: "Tæp sextíu prósent trúa á framhaldslíf eftir dauðann." Talan var lægri en ég bjóst við, en svo kemur reyndar í ljós þegar greinin er lesin að tæp 10% trúa því að ekkert taki við eftir dauðann og aðeins 8% að við rísum upp til samfélags við guð - eins og það er orðað í greininni.

Ég hef nefninlega verið svolítið að velta því fyrir mér hvort eitthvað sé í boði fyrir trúlaust fólk í sambandi við jarðarfarir. Er til eitthvað sem heitir borgaraleg jarðarför? Er til greftrunarstaður sem ekki tengist guðstrú og hefur ekki verið blessaður eða vígður af kirkjunarmanni?
Þetta eru nú bara svona vangaveltur sem ég hef enn sem komið er ekki nein svör við. Hvað gera t.d. ásatrúarmenn? Þið kannski vitið þetta?

6. janúar 2006

Breyttir timar

Það var að renna upp fyrir mér að betri tímar eru nú hjá mér en voru, fjárhagslega. Við erum búin að skuldbreyta lánum og lækka greiðslubyrði o.þ.h. allt í gúddí. Og ég er hægt og bítandi að skilja það að ég þarf ekki lengur að spara við mig þúsundkallana, eða fimmhundruðkallana eins og einu sinni.

Ég get labbað mig inn á kaffihús og keypt mér te (af því mér finnst það betra en kaffi, en ekki þetta græna sull sem margir halda að maður drekki af því te er ofar á óskalistanum en kaffi) og kökusneið án þess að það komi nður á matarkaupum fjölskyldunnar. Þetta er nokkuð góð tilfinning. Ég get keypt mér hitt og þetta án þess að þurfa að bera það undir fjölskyldufjármálaráð fyrst og án þess að eiga það á hættu að vera komin langt upp fyrir heimild í bankanum.

Og hafandi gert þessa uppgötvun þá átta ég mig líka á því hversu andskoti stíft og strembið fjármálaumhverfi mitt hefur verið til þessa. Ég man þá tíð þegar að leggja 1.000 kall í púkk í afmælisgjöf var blóðugt.

Já nú eru breyttir tímar maður minn og þvílíkt sem það er betra að vera til undir þessum kringumstæðum.
Sendi baráttukveðjur til allra sem enn þurfa að velta fyrir sér hverri krónu.

Hjólaárið 2023 - 3.036 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.036 km á árinu. Hjólaði 1.589 km til og frá vinnu og 1.447 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 203 af ...