15. desember 2008

Piparkökuturninn





Í upphafi baksturs sagði ég sem svo: "Stelpur eigum við ekki bara að gera lítið og sætt piparkökuhús í ár?"

Útkoman varð svo stærsta piparkökuhús sem við höfum nokkurntíman gert.

Til samanburðar er hér mynd af húsinu sem við gerðum í fyrra.

Hrund hannaði piparkökubílinn, kemur skemmtilega út.

13. desember 2008

Snjórinn



Jæja, var að moka snjóinn. Mikið verður allt fallegt klætt hvítum snjó.


Hrund og Brandur fögnuðu próflokum í gær með því að búa til pínulítinn snjókarl. Mér skilst að Brandur hafi nú meira verið í því að veiða hendurnar af karlinum heldur en að hjálpa til, en svona eru kettir.


Hinum árlega piparkökubakstri er lokið og í dag ætlum við að skreyta og setja saman piparkökuhúsið okkar sem er með frekar óvenjulega sniði í ár, alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt. Set inn mynd þegar það er komið saman.
Það fór svo mikið deig í piparkökuhúsið að við ákváðum að hnoða í nýtt deig til að eiga eitthvað af piparkökum til átu líka. Það endaði auðvitað þannig að við erum með allt of mikið af kökum (ef það er hægt).


Það gengur vel að hjóla í snjónum ef frá er talið óhapp sem ég varð fyrir á leiðinni heim um daginn. Þá ætlaði ég að hjóla á götunni eins og ég geri oft, nema hvað að gatan hafði verið söltuð og var snjórinn á henni orðinn n.k. saltpækill - eða drullulitað slabb. Sem betur fer var ekki umferð um götuna því ég gjörsamlega missti stjórn á hjólinu. Mér tókst að halda mér á hjólinu en það svingaði stjórnlaust um götuna og endaði ég á öfugum vegarhelmingi með mikinn hjartslátt og ónotatilfinningu. Af þessu hef ég lært að forðast saltaðar götur og passa mig extra vel þar sem ég þarf að fara yfir götur sem hafa verið saltaðar. Naglarnir hafa greinilega ekkert að segja við þessar aðstæður. Ég endaði á því að hjóla á gangséttinni sem við þessa tilteknu götu er mjög mjó en ég komst heil heim. Það er verst þar sem gangséttin er nálægt götunni og saltslabbið gusast upp á gangséttina en það getur verið mjög varasamt. Ekki datt mér í hug að saltið gæti verið svona hrikalegt.
.
En jólin nálgast og ég ætla mér að gera svakalega margt núna um helgina til að undirbúa jólin. Því eins og venjulega æðir tíminn áfram og einhvernvegin hleypur frá mér. Jólin koma nú samt þó ég hafi aldrei komist alveg yfir allt sem ég ætla mér að gera, en það er líka allt í lagi. Því það sem skiptir máli er ekki hvort búið er að þurrka úr öllum skápum og skúra öll gólf eða annað í þeim dúr.

5. desember 2008

Hitt og þetta og þó mest jólaundirbúningur



Útgáfutónleikarnir tókust vonum framar, full kirkja og góð stemming (diskurinn er til sölu hjá mér).



Svo nú er að fara að undirbúa jólin. Jóladagatalið gengur ekki vel hjá mér í ár. Er einstaklega andlaus eitthvað. Stelpurnar tóku sig til einn daginn og útbjuggu hvor fyrir aðra (án þess að hin vissi af), það kom nokkuð skemmtilega út.



Svo er það piparkökubaksturinn, ætlunin er að hnoða í deigið í dag og baka á morgun, ætli eitt stk hús verði bakað líka (set inn mynd þegar það er komið upp). Þetta er eina smákökusortin sem ég baka fyrir jólin. Aðrar smáköku hafa bara dagað uppi óétnar í fínu kökuboxi, svo það er alveg eins gott að sleppa því að baka þær. Það er svo mikið annarskonar framboð af allskonar sætindum og fíneríi. En ef Bjartur les þetta þá er mjög líklegt að eitt eða tvö kryddbrauð verði bökuð á laugardaginn og hann er velkominn til að taka eitt með sér ef hann kíkir í heimsókn ;)



Mig langar líka svo mikið til að steikja laufabrauð, hef aldrei gert það heima. Það var alltaf hittst í Vogaskóla þegar stelpurnar voru minni og laufabrauð skorið og steikt. En svo var skólaeldhúsið rifið og nokkkur ár tók að byggja nýtt og þessi hefð datt niður. Við söknum þess og því langar mig að spreyta mig á þessu heima. Sjáum til hvort eitthvað verði af því í ár.

26. nóvember 2008

Útgáfutónleikar

Þriðjudagskvöldið 2. desember klukkan 20:00 verða útgáfutónleikar í Áskirkju.

Þar fagnar Kór Áskirkju útgáfu á jóladiskinum Það aldin út er sprungið. Kórinn syngur íslensk og erlend jólalög án undirleiks undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar. Á disknum hljjóma perlur sem allir kannast við, í hefðbundnum sem og óhefðbundnum útsetningum, ásamt minna þekktum kórverkum.

Aðgangur er ókeypis.

10. nóvember 2008

Fréttaflutningur

Ég eins og margir aðrir var sársvekkt yfir fréttaflutningi af mótmælafundinum á laugardaginn síðasta. Mig hefur langað að skrifa eitthvað um það en ekki gefið mér tíma í það. Í staðinn hef ég sett inn hér slóðir á bloggfærslur það sem fólk lýsir óánægju sinni með fréttaflutninginn, enda var hann til háborinnar skammar.

Tilfinningin er sú að maður geti engum treyst lengur. Hver segir satt? Hverju er sagt frá og hvað skilið eftir? Og þegar Sjónvarpið tók upp á þessum ósóma líka, ja hvernig get ég treyst fréttaflutningi frá þeim eftir þetta?

Kíkið endilega á þessar færslur.

Lára Hanna Einarsdóttir - Hvert er eiginlega hlutverk fjölmiðla?

Helga Vala - Af spunasveini Rúv.

Bloggsíða Ágústs Borgþórs - Mannfjöldinn er fréttin - ekki eggjakastið

Silfur Egils - Mótmælin áðan

Jenný Anna Baldursdóttir - Mótmælum rænt um hábjartan dag

En í gærkvöldi klóraði Sjónvarpið í bakkann og birti réttlátari mynd af mótmælunum og talaði við Hörð Torfa og þann sem stóð fyrir borgarafundinum í Iðnó. Lára Hanna Einarsdóttir hefur sett það myndskeið inn á bloggið hjá sér og þetta er slóðin á færsluna hennar. Afsökunarfrétt, Einar Már og skrílslæti forsætisráðherra

31. október 2008

Reynslan af nagladekkjunum er góð.

Finn ekkert fyrir hálkunni, en veit af henni og fer þess vegna hægar yfir og varlegar í beygjur. En ég hef aldrei skrikað eða runnið til og mér finnst líklegt að ég eigi eftir að venjast vetrarhjóleiðunum aðeins betur áður en ég eyk hraðann aftur. Ég er næstum 5 mín lengur í vinnuna þessa dagana en ég var í sumar, en ég er líka með eindæmum varkár manneskja og hrædd við að detta.
Hef bara einu sinni komist yfir 30 km/klst eftir að nagladekkin fóru undir hjólið en ég finn að ég er smátt og smátt að auka hraðann aftur eftir því sem ég læri betur á dekkin.

Kuldinn er lítið sem ekkert að angra mig. Ég er í mínum venjulegu fötum, gallabuxum, bómullarbol (þó vanir hjólreiðamenn segji manni að forðast bómull því hún drekkur í sig svitann og blotnar), lopapeysu og lopasokkum. Utan yfir það er ég svo í fínu Didrikson regn/útivistarfötunum mínum sem bæði halda hita, en anda líka (kostuðuð 12 þús í útilífi í sumar). En mig vantar nýja vetlinga því mínir eru orðnir ansi götóttir og mér verður kalt á puttunum sem standa út úr götunum. En úr því verður bætt fljótlega.

Sem sagt vetrarhjóleiðarnar ganga vel og ég er svo ánægð með að geta haldið áfram að hjóla þó smá snjór og hálka sé í bænum.

30. október 2008

kjosa.is

Fyrir kosningabæra Íslendinga sem ekki eru sáttir og sælir með ráðamenn á Alþingi vil ég benda á síðuna www.kjosa.is þar sem verið er að safna undirskriftum. Listinn verður afhentur valdhöfum og fjölmiðlum 15. nóvember nk.

29. október 2008

Nýjung á bloggsíðu

Glöggir bloggskoðarar hafa tekið eftir því að skemmtilegu bloggararnir mínir hér til hægri eru núna raðaðir í röð eftir því hvenær þeir síðast skráðu færslu og eru nú upplýsingar um hversu langt er síðan síðast var bloggað.

Það var fyrir tilviljun að ég sá þennan möguleika sem kerfið býður uppá. Svo nú gildir að vera duglegur að blogga til að vera efstur á lista.

10% landsmanna styðja Davíð

Bara verð að setja þennan link hérna. Mögnuð samsetning á fréttum um skoðanakönnun sem stöð 2 gerði á fylgi Davíðs og svo viðtali við Hannes Hólmstein.

Kíkið á þetta hér (er ekki langt)

27. október 2008

Peysan sem ég prjónaði á Hrund




Uppskriftin að peysunni (og sokkunum) er í Ístex blaði nr. 14. og hún er prjónuð úr Álafoss lopa.
Gaman að segja frá því að þegar ég var á sama aldri og fyrirsætan var trefillinn keyptur sem hún hefur um hálsinn.

22. október 2008

Hjólað í snjó í fyrsta skipti


Lagði af stað næstum 10 mín fyrr en venjulega því ég vissi ekki hvernig væri að hjóla í snjó eða hvort það væri hálka.

Fór stystu leiðina og var komin 10 fyrir 8 svo það var óþarfi að leggja fyrr af stað.


En þetta var skemmtileg upplifun. Fann ekki fyrir hálku, en sá bíla spóla af stað á ljósum. Þeir gætu auðvitað hafa verið á sumardekkjunum. Svo var ég svo heppin að hafa vindinn í bakið.


Ég ætla annaðkvöld á fræðslufund hjá Íslenska fjallahjólaklúbbunum um vetrarhjóleiðar, geri ráð fyrir að koma þaðan full af visku um hvernig best er að klæða af sér kuldann og fleira slíkt.


Mætti 6 öðrum hjóleiðamönnum sem felstir voru vel búnir með ljós og svoleiðis. Kom mér satt að segja á óvart hvað þeir voru margir.

20. október 2008

Finnst ég verða að koma þessu að.

Ég fór á fundinn á Austurvelli á Laugardag. Ég varð fyrir vonbrygðum þegar ég mætti á staðinn hversu fáir voru, hélt í alvöru að Austurvöllur yrði troðfullur af fólki.
En fréttamiðlum ber ekki saman um fjöldann. Lögreglan hér taldi um 500 manns vera á staðnum er Reuters fréttastofan segir rúmlega 2.000 manns. Smella hér til að sjá fréttina frá þeim.

Hér er svo ræðan sem Þráinn Bertelsson hélt og er aftan á Fréttablaðinu í dag.

Nýir tímar
Nornaveiðar eru sport sem felst í því að finna rosknar konur sem búa einar og fleygja þeim í dýflissur og pynta þær til að játa að þær hafi mök við makt myrkranna – og brenna þær síðan á báli.

HÉR loga nógir eldar og við þurfum ekki að kveikja fleiri, og þaðan af síður er ástæða til að brenna einn né neinn á báli. Hins vegar er fullkomin ástæða til að mótmæla því að íslenska þjóðin skuli hafa verið gerð gjaldþrota fjárhagslega og siðferðislega og orðstír hennar troðinn í svaðið.

ÞAÐ er kominn tími til að krefjast þess að þeir umboðsmenn þjóðarinnar sem ýmist sváfu á verðinum ellegar slógust í lið með þeim sem fengu útrás fyrir græðgi sína með því að gera árás á eigin þjóð verði látnir axla þá ábyrgð sem þeir þiggja svo há laun fyrir að bera. Það er greinilega til lítils að eiga dóbermannvarðhund ef maður þarf svo að gelta sjálfur, jafnvel þótt dóbermann- hundurinn heiti Dabbi og allir eigi að vera hræddir við hann.

ÞAÐ góða við að íslenska lýðveldið skuli hafa verið lagt í rúst er að nú getur loksins hafist uppbyggingarstarf. Við getum byggt hér upp það þjóðfélag sem okkur dreymir um og við getum orðið fyrirmynd annarra þjóða – en ekki aðhlátursefni. En til þess að svo megi verða þurfum við að skipuleggja okkur upp á nýtt og standa saman um að þeir sem brugðust okkur svo hrapallega og bera ábyrgð á því hvernig komið er komi ekki nálægt því að byggja upp hið nýja óspillta, réttláta, ráðvanda og ábyrga þjóðfélag sem byggir á frelsi einstaklingsins til þeirra athafna sem ekki skaða aðra og sameiginlegri ábyrgð einstaklinganna hver á öðrum.

EF við ætlum að byggja hér upp betra þjóðfélag getur fólkið í landinu engum treyst nema sjálfu sér fyrir því verki – og allra síst stjórnmálaflokkunum sem bera ábyrgð á núverandi ástandi. Ef við ætlum að byggja hér upp nýtt þjóðfélag er mál til komið að íslenska þjóðin vakni af sínum væra blundi. Það er mál til komið að Ísland vakni. Núna. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr eru komnir nýir tímar. Það er á valdi þjóðarinnar að ákveða hvort þeir tímar verða betri eða verri en þeir sem liðnir eru."

17. október 2008

Fyrsti hjólatúr á nagladekkjum

Það var dimmt og rigning í morgun þegar lagt var af stað á nýju nagladekkjunum. Vinalegt marrið í nöglunum hljómaði eins og hinn fegursti söngur og í fyrstu var það eini munurinn á sumardekkjunum og nagladekkjunum. En þegar líður á er greinilegt að hjólið rennur ekki eins vel og áður og það þarf aðeins meira að hafa fyrir því að hjóla. Hjólið er virkar hálfum gír þyngra en áður.
En það er stöðugt og enginn aukatitringur eins og ég hafði búist við þar sem dekkin eru grófari. Hinsvegar var einnig skipt um sveifar og tannhjól svo það eru fleiri breytur en bara dekkin sem geta skekkt samanburðinn.

Mætti 5 hjólreiðamönnum. Tveir þeirra voru með svakalega flott ljós á hjólunum, þau blikkuðu en gáfu samt mjög sterka og flotta lýsingu á veginn fyrir framan. Mig grunar að þetta séu sambærileg ljós við þau sem kosta rúmlega þrjátíuþúsundkrónur í Erninum.

16. október 2008

Vetrarhjólreiðar



Jæja þá er komið að því. Það er verið að setja nagladekk undir hjólið og á nú að reyna sig við vetrarhjólreiðarnar.
.
Ég er svo ekki tilbúin að hætta að hjóla og var eiginlega farin að kvíða hreyfingaleysinu sem fylgir oft vetrinum (nema ef vel snjóar og hægt er að grípa í skófluna).
Mín dekk munu hafa 240 nagla í sér og skilst mér að það eigi að duga vel hér innanbæjar.
.
Þá er bara eftir að fá sér gott ljós til að sjá götuna og spurning hvort karfan verði að fjúka til að það komist fyrir? Þeir hjá Borgarhjólum gátu á sínum tíma fiffað fyrir mig blikkljósið á körfuna (skrítið hvað ekki er gert ráð fyrir að svona græum á hjól með körfu) en ég á eftir að finna þetta út með ljósið. Ætli ég þurfi ekki nýja vettlinga líka? Jæja við sjáum nú til.
.
Eins gott að maður gugni svo ekki á öllu saman. Hef núna tvisvar sinnum snúið við vegna hálku og verið skuttlað í vinnuna, en eftir nagladekkjaásetningu verður hálkan ekki lengur afsökun.
Verð að viðurkenna að ég hlakka til að prófa mig í snjónum og stend mig að því að vona að hann láti sjá sig allavega smá, en það borgar sig að fara varlega með óskirnar...
.
Spennandi tímar framundan.

10. október 2008

Hvað gengur á?

Nú er ég að reyna að skilja, því eftir að hafa hlustað á fréttirnar frá því í gærkvöldi koma upp ýmsar spurningar varðandi samskipti landanna Íslands og Bretlands.

Er verið að nota okkur (Íslendinga) sem blóraböggul fyrir öllu því sem illa er að fara á fjármálamarkaðinum í Bretlandi?

Skv. fréttaflutningi Sjónvarpsins í gærkvöldi eru menn algjörlea tvísaga um það sem er að gerast.

Á Íslandi er sagt að stjórnmálamenn þessara tveggja landa hafi rætt saman á góðu nótunum og í þeim viðræðum hafi verið sagt að íslenska ríkið ábyrgist innistæður Breta í bönkunum.

Á Bretlandi er hrópað að Íslendingar segist ekki ætla að standa við skulbindingar.


Hvað veldur?

Þetta er algjörlega svart og hvítt og að mínu mati mjög alvarlegar ásakanir á okkar hendur. Getur verið að íslenskir ráðamenn séu svona lélegir í ensku að misskilningur sé ástæðan?
Þó dettur manni líka í hug að hér sé pólitísk refskák. Getur það verið að af því við erum svona lítil að þá telji þeir ytra að þeir geti sagt og gert það sem þeir vilja gagnvart okkur.
Og afhverju taka menn ekki harðar á þessu hér heima og tala sínu máli þarna úti?


Gengu þessar vinsamlegu viðræður milli ráðamanna landanna kannski út á það að við tökum á okkur að vera blóraböggull ef þeir taka á sig skuldbindingarnar?

Fleiri eru að velta þessu sama fyrir sér og rakst ég þessa færslu í því sambandi.

4. október 2008

Risapúsl


Ég á brjálaða vinkonu sem keypti sér púsl sem er hvorki meira né minna en 9.000 bitar!


Nú hef ég sagt henni mörgum sinnum að hún eigi aldrei eftir að klára þetta púsl (ég meina það er 9.000 bitar). Ég sjálf hef mest púslað 3.000 bita púsl og verið lengi að því.


En svo fór ég í heimsókn til hennar um síðustu helgi og það fór nú þannig að ég átti í mestu erfiðleikum með að slíta mig frá púslinu. Váhds hvað það er skemmtilegt og spennandi. Hún hefur sér herbergi undir það og lét saga út fyrir sig krossviðarplötu sem passar undir púslið (eða átti að gera það, kom í ljós að hún var örlítið of lítil. En það verður leyst).


Nú bara verð ég að kaupa mér stærra hús svo ég geti líka púslað svona hrikalega stórt púsl.

26. september 2008

Hjólafréttir

Frábær upplifun að hjóla í vinnuna í morgun, verð bara að segja frá því.
Fyrrihluta leiðarinnar var ég í nokkuð sterkum hliðarvindi sem þó meira ýtti á eftir mér frekar en hitt. En svo eftir smávægilega beygju varð all í einu logn eða a.m.k tilfinning eins og það væri logn og hún varði alveg þar til ég mætti öðrum hjólreiðamanni sem hafði gefist upp á að hjóla móti vindinum og teymdi hjólið sitt áfram.

Ég sem sagt hafði hressilegan meðvind í morgun og þegar ég skoðaði Garmin mælitækið á áfangastað sá ég að hámarkshraðinn hjá mér í þessari ferð var 37 km/klst sem er nokkuð meira en venjulega með mikið minna streði af minni hálfu.

Lifi meðvindurinn!

24. september 2008

Hjólafréttir

Það er gaman að því hvað margir eru enn að hjóla á morgnana þrátt fyrir vind og rigningu.
Þetta eru svona 5-13 sem ég sé á leiðinni í vinnuna (þetta er orðið ósjálfrátt hjá mér að telja hjólreiðamenn).

Verst að hjólið mitt er að verða bremsulaust, en ég á tíma eftir helgi í viðgerð. Ég vildi svo gjarnan kunna þetta sjálf og hafa aðstæðu til að dúllast við að halda hjólinu við að ég tali nú ekki um að geta geymt fákinn inni á meðan hann er ekki í notkun.

Svo er það kostur við þá sem hjóla núna að þeir eru með hægri regluna á hreinu. En það er oft vandamál á sumrin þegar sem flestir eru að hjóla hvað margir fara ekki eftir þessari reglu.
Munið hægri regluna.
Það henti mig um helgina að ég var að keyra Langholtsveginn að tveir drengir komu hjólandi á móti mér á öfugum vegahelmingi! Það er ekkert að því að hjóla á götunni (þetta var á 30 km/klst hámarkshraða svæði) en þá verður engu að síður að hjóla á réttri akrein.

21. september 2008

Journey to the Center of the Earth 3D

Þrívíddarmynd, hverslags eiginlega vitleysa er þetta?

Ég sat a.m.k. heima meðan hinir fjölskyldumeðlimirnir fóru í bíó. Lítið gaman fyrir eineygða manneskju að fara á svoleiðis.

13. september 2008

Ólympíuleikar

Ólympíuleika er alltaf gaman að horfa á. Þá gefst tækifæri til að fylgjast með íþróttum sem oftast sjást ekki í sjónvarpi, a.m.k. ekki hér heima. Íþróttir eins og dýfingar, fimleikar, sund og hestaíþróttir er eitthvað sem ég hef gaman af að horfa á og ég nýt þess í botn á fjögurra ára fresti.

En nú vildi svo til að í síðustu viku lá ég veik heima og þá gafst mér tækifæri til að fylgjast með paralympics sem nú standa yfir eða ólypmíuleikum fatlaðra sem mikið er sýnt frá á BBC (þó þeir fylgist aðallega með sínu fólki og þeirra afrekum, skiljanlega). Það er alveg jafn spennandi að fyljgast með þeim og sjá allar þessar íþróttir sem ekki sjást að jafnaði í sjónvarpi eins og hjólastólakörfubolti, fótbolti blindra, kapp á hjólastólum, hjólreiðar og sund svo eitthvað sé nefnt.
Íþróttamennirnir eru flokkaðir eftir fötlun og það tekur smá tíma að átta sig á því öllu saman. Sundmenn eru t.d. flokkaðir sem S5 til S10. Því hærri tala því minni fötlun. Blindir sundmenn eru flokkaðir S11 til S13. S11 eru algjörlega blindir en S13 eru með einhverja sjón þó lítil sé.


Mikið hefur verið sýnt frá sundinu enda eiga bretar marga góða sundmenn og þeir hafa unnið til nokkurra gullverðlauna á þessu móti. Við eigum einn sundmann á mótinu Eyþór Þrastarson en hann er flokkaður sem S11, en því miður hef ég ekki séð hann í keppni. Eyþór komst áfram í úrslit og varð þar áttundi í mark. Frábær árangur, hann jafnvel bætti sitt eigið met í undankeppninni. Ég hef séð nokkrar keppnir þar sem blindir synda en þeir eru með hjálparmenn á báðum bökkum sem halda á stöngum til að pikka í sundmanninn þegar hann kemur að bakkanum til að láta vita hvenær bakkanum er náð. Hvernig er annað hægt en að dást að þessu fólki? Eða handalausu sundmennirnir sem þurfa að skella höfðinu í bakkann til að staðfesta að þeir séu komnir í mark.


Miklar væntingar voru til íþróttamannsins David Weir en hann hefur staðið sig mjög vel undanfarið í kappi á hjólastólum. Honum hefur ekki tekist að næla í gullverðlaun á þessu móti ennþá en er komin með eitt silfur og eitt brons. Hann mun keppa í dag í 400m vegalengd, verður spennandi að sjá hvort hann nær gullinu þar.
Shelly Woods keppir í sömu íþrótt og er flokkuð sem T54 eins og Weir. Það gekk mikið á í 5.000 m keppninni því þegar keppendur áttu ekki nema rétt rúmann hring eftir verður árekstur sem leiðir til þess að 6 keppendur detta úr keppni. Shelly Woods kemur önnur í mark og er afhent silfurverðlaunin. Ekki löngu seinna er ákveðið að afturkalla verðlaunin og að keppnin verði endurtekin. En Shelly lætur það ekki á sig fá og vinnur bronsið í endurtekinni keppni.




Svo er það hlauparinn Oscar Pistorius sem margir þekkja vegna þess að hann sóttist eftir að komast á ólympíuleikana og keppa með ófötluðum, en áhöld voru um það hvort hann hefði forskot fram yfir aðra hlaupara þar sem hann notast við gerfifætur frá Össuri. Ég sá hann keppa í 100 m hlaupi þar sem magnað var að sjá hvernig hann náði að sigra á síðustu sekúndu. En hann var frekar hægur af stað en náði svo upp góðum spretti alveg í bláendann á hlaupinu.



Mér finnst synd og skömm hvað lítið er sýnt frá þessum leikum í sjónvarpi almennt. Ekki bara vegna þess að þarna eru frábærir íþróttamenn heldur líka til að sýna okkur sem ekki þekkjum af eigin raun hversu lítil hindrun fötlunin er þegar kemur að íþróttum og gefa okkur tækifæri til að horfa framhjá fötluninni og sjá einstaklingana.

11. september 2008

Eninga meninga...

Fékk í gær bréf frá bankanum um nýja greiðsluáætlun á greiðsluþjónustunni. Enn og aftur umtalsverð hækkun, en við höfum ekki gert neina breytingu á því sem verið er að borga.

Það sem er í greiðslu hjá okkur er: Sími, rafmagn, fasteignagjöld, ruv, húsfélagið og lánið af íbúðinni.

árið 2006-7, greiddum við kr. 58.000,-
árið 2007-8, kr. 62.500,- hækkun um 4.500 á mánuði eða 7,8% hækkun
árið 2008-9, kr. 79.000,- núna hækkun um 16.500 á mánuði eða 26,4% hækkun!

Sama tímabil hækkuðu launin mín um 9% milli fyrstu tveggja tímabilanna og um 16,9% milli seinni tveggja. Miðað við þetta eru tekjurnar okkar að skerðast töluvert.

Og nú hef ég ekki tekið með í reikninginn matvörur eða fatnað en við vitum öll að þau útgjöld hafa hækkað töluvert undanfarið.

Ætli maður neyðist ekki til að herða sultarólina um eitt gat eða svo.

5. september 2008

Klukk

Van De Irps klukkaði mig og að sjálfsögðu bregst maður fljótt og vel við.

Fjögur störf sem ég hef unnið við um ævina:
1. Unglingavinnan
2. Skógrækt Reykjavíkur. Kynntist þar skemmtilegu fólki sem leiddi til góðrar vináttu og til þess að ég hitti manninn minn.
3. Skrifstofustarf hjá malbikunarfyrirtæki. Alin upp til að sinna því starfi, var bara pínulítil þegar ég byrjaði að raða fylgiskjölum í ávísanaröð, ofsa skemmtilegt (ég er ekki að grínas mér fannst það gaman).
4. Skrifstofan þar sem ég er núna. Afleiðing af uppeldisstarfinu?

Fjórar bíómyndir sem ég held upp á:
1. Dirty Dancing. Hverjum finnst sú mynd ekki skemmtileg? Sá hana 3x í bíó á sínum tíma og þori loksins að viðurkenna það.
2. 50 first dates. Kemur mér alltaf í gott skap.
3. The Scarlet Pimpernel með Jane Seymour. Ég er greinilega svolítið fyrir rómantískar myndir.
4. Fifth element og fleiri góðar með Bruce Willis.

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar:
1. Dog Whisperer. Eins og ég er lítið fyrir hunda í alvörunni þá hef ég mjög gaman að því að sjá þá (og eigindurnar) kennda rétta siði.
2. Life on earth. Held ég fái ekki leið á þessum þáttum.
3. Friends. Virðist heldur ekki fá leið á þeim.
4. How I met your mother.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
1. Danmörk... Nokkrum sinnum
2. Frakkland. Þó mestur tíminn hefði verið í Disney landi. Get vel hugsað mér að fara þangað aftur.
3. Snæfellsnes. Alltaf fallegt, alltaf gaman
4. Elliðaárdalurinn.

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan Blogg:
1. mbl.is
2. visir.is
3. fjallahjolaklubburinn.is (kanski ekki daglega, en nokkuð oft)
4. uuu... eiginlega bara blogg sem ég svo skoða daglega.

Fjórar bækur sem ég hef lesið oft:
1. Harry Potter. Hef lesið allar bækurnar bæði á íslensku og ensku.
2. Bróðir minn ljónshjarta
3. Dagbók Önnu Frank
4. Ronja Ræningjadóttir

Fjórir Bloggarar sem ég klukka:
1. Eyrún
2. Auður
3. Inga
4. Arnar

2. september 2008

Haustið

Haustið er spennandi tími því það er svo margt að gerast. Skólarnir að byrja og flestallir tilbúnir að takast á við námið (hvað sem svo verður þegar líða tekur á veturinn). Kórinn fer aftur af stað í æfingar, þó það verði ekki alveg strax í þetta skiptið, en þið getið hlakkað til því við munum gefa út disk fyrir jólin með jólatónlist.

En afhverju ætli haustútgjöldin komi mér alltaf svona á óvart?
Þetta er á hverju hausti, nýjar skólabækur, nýjir leikfimiskór og úlpur orðnar of litar. Vetlingar týndir eða ónýtir og fleira þvíumlíkt.


Ég var þó undirbúin fyrir annríkið á þessum tíma, sem er reyndar minna en venjulega. Kórinn ekki byrjaður að æfa, stelpurnar orðnar það stórar að ekki er eins mikið um afmælisveisluhald og áður. Og jafnvel minna fyrir því haft.
En það er samt púsluspil að koma öllu fyrir innan hvers dags og á hverjum degi eitthvað skipulagt sem þarf að gerast eða undirbúa.
Á morgun (3. sept) á t.d. Eyrún afmæli og þá verður eitthvað gert til að gleðja hana. Mæli með því að þið sendið henni afmæliskveðju á bloggið hennar: http://www.eyrun-virgo.blogspot.com/

30. ágúst 2008

Ávextir og grænmeti.


Hversvegna er svona erfitt að fá góð epli?

Eplin sem við kaupum hér (annaðhvort í Hagkaup eða Bónus) eru oft næstum óæt. Þau eru mjölmikil, lin og bragðast ekki vel.
Auðvitað eru þetta ekki öll eplin því annars væri maður löngu hættur að kaupa þau en allt of mörg.

En þetta eru ekki bara epli, heldur eru sumar appelsínurnar alveg þurrar. Og það er engin leið að vita ástandið fyrr en skorið eða bitið er í ávöxtinn.
Svo er það þetta með gulræturnar. Uppskeran hjá mér í ár var með rýrasta móti. 2 sæmilegar gulrætur og 1 pínulítil. En bragðið af þeim var ótrúlega gott. Þær voru dýsætar og bragðgóðar frá toppi til táar.
Hversvegna ætli það sé að heimaræktað grænmeti er alltaf bragðmeira heldur en keyp?
Er það vegna þess að maður borðar það glænýtt úr garðinum?
Ætti maður kannski bara að kaupa ávextina lífræntræktaða?

15. ágúst 2008

Fréttir




Þá er sumarfríinu að ljúka. Síðasti formlegi dagurinn í dag.






Þetta hefur verið dásamlegt frí. Við fórum til Danmerkur. Þar var haldið brúðkaup sem var einstaklega glæsilegt og skemmtilegt. Daði litlibróðir gekk að eiga Iben og það var bara svo fallegt allt saman.
Eyrún mín var brúðarmeyja ásamt Malthe Kristófer, Abelínu Sögu og Andreu.






Eftir brúðkaupið fór ég með litlu fjölskylduna mína að hitta tengda-fjölskylduna sem hafði leigt sumarhús í tilefni afmælis tengdamömmu.


Þetta hús var ekki langt frá Ringköbing en nær stöndinni hjá litlum bæ sem heitir Söndrevig.


Þaðan fórum við í Lególand og Löveparken sem var mjög gaman. Hrund náði frábærum myndum af dýrunum og sérstaklega ljónunum.


Húsið sjálft var með innisundlaug sem var vel nýtt af yngrihluta hópsins.


Ferðalagið endaði þó ekki eins skemmtilega og það hófst. Við höfðum flogið út með Iceland-Air og vorum ánægð með það flug en heimferðin var bókuð með IcelandExpress.

Tengdafólkið hafði einmitt flogið út með þeim á laugardeginum til Billund og þá var 10 tíma seinkun á fluginu. Það er nákvæmlega það sem við lentum í á leiðinni heim frá Kaupmannahöfn og tengdafólkið líka frá Billund. Við fengum sms þegar við vorum á leið á flugvöllinn kl. 19 um að fluginu seinkaði til kl. 5.55! Við skiluðum af okkur bílaleigubílnum og fórum inn á flugvöllinn til að verða okkur út um upplýsingar en fundum engann sem gat sagt okkur eitthvað af viti. Upplýsingaborðið sagði okkur að tala við SAS en SAS að tala við Express sem var ekki að finna á staðnum.


Við enduðum á því að bóka okkur hótelherbergi á Hilton hótelinu sem er þarna við flugvöllinn og ég a.m.k. náði að sofna svolítið áður en við þurftum aftur að mæta á flugvöllinn. Flugið fór svo ekki í loftið fyrr en að verða hálf sjö.


Þegar við svo loksins, loksins komumst heim var ég bæði undrandi og glöð að sjá hversu vel allar plönturnar mínar hafa dafnað í umsjá Helenu, vinkonu Eyrúnar. Meira að segja paprikurnar voru glansandi og fallegar og 2 orðnar rauðar. En því miður sá ég mér ekki annað fært en að farga þeim plöntum því þær voru morandi í lúsum. Pínulitar glærar lýs út um allt og vefir milli blaða. Jakk, bjakk. En hér er mynd af þeim rétt áður en þær enduðu í endurvinnslutunnunum.

13. júlí 2008

Fyrsta langa halupið skv. hlaupaplani.

Jæja, nú er ég aldeilis stolt af mér. Skokkaði heila 7 km í morgun án þess að taka labbikafla.


Veðrið var mjög svo ákjósanlegt og ég fór af stað með það í huga að fara 3 km án þess að labba en þegar því markmiði var náð var ég í það góðu formi að ég ákvað að bæta við 1 km og sjá svo til
og þannig var það út hlaupið. Eftir 6 km var ég farin að finna fyrir þreytu í hægra lærinu en fannst ómögulegt að fara að labba þegar aðeins 1 km var eftir.

Leiðin sem ég fór plottaði ég út frá Borgarvefsjá. Það sést svo sem ekki vel á þessu korti hvert ég fer. Í grófum dráttum byrja ég að að skokka niður að Sæbraut og yfir hana, yfir Elliðaárnar og undir Miklubraut. Aftur yfir Elliðaár á hitastokkum (held þeir séu það amk). Inn fyrstu undirgöng undir Sæbraut og stígurinn eltur og yfir göngubrúna yfir Miklubraut. Síðan meðfram Suðurlandsbraut alveg að Reykjavíkurvegi og niður hann smá spöl og síðan inn í Laugardalinn. Framhjá Glæsibæ og fljótlega eftir það var ég komin 7 km. Það sem vantaði uppá til að komast heim labbaði ég bara.

Garmin tækið mitt er yndislegt. Fyrir hlaupið set ég inn hversu langt ég ætla að hlaupa og hversu lengi (er með plan frá Öddu sem er frábært) og síðan þegar ég hleyp (skokka) af stað þá er tækið með ímyndaðan kall sem hleypur með mér og ég keppi við. Ef ég er á undan honum þá spilar tækið stutt sigurlag þegar vegalegnd er náð.


Neðra línuritið sýnir eitthvað sem kallast pace og efri línan hraðann.

Ég er virkilega ánægð með árangurinn og er mjög svo bjartsýn á það að ná lokatakmarkinu 23. ágúst og jafnvel á sæmilegum tíma.

10. júlí 2008

Maiskorn


Það er staðreynd að mér finnst maiskorn vera gott. Hef keypt mér frosna kornið og smurt með smjöri, pakkað inn í álpappí og hitað á grillinu - namm, namm.

En um daginn keypti ég í Bónus einn kornstöngul ferskann í grænmetisdeildinni. Mig hefur langað til að prófa það því einhver sagði mér að það væri lang, lang, lang best þannig.

Það varð töluverð reykistefna við kassann þegar við greiddum því enginn virtist vita hvernig ætti að koma þessari vöru í verð. En að lokum tókst það, seinna þegar ég skoðaði strimilinn var mér heldur bilt við því þessi eini stöngull sem ég keypti kostaði 151 kr!!!

Um kvöldið var svo grillað og þá er ekkert annað gert við maisstöngulinn enn að setja hann beint á grillið (settum hann á efrigrindina) og snúa reglulega.
Og síðan var smakkað. Og það er engin lygi sem mér var sögð því þetta er lang, lang, lang, lang besta kornið sem ég hef smakkað. Ég mun kaupa mér svona aftur þó það sé svona dýrt.

8. júlí 2008

Afstæði vegalengda.

Um helgina ók ég Sæbrautina með Hrund mér við hlið og var í leiðinni að sýna henni hvar ég hjóla á morgnana. Og það er nú bara þannig að þessi vegalengd er miklu, miklu lengri þegar setið er í bíl heldur en að hjóla hana. Skrítið.

En í ljós þess er ekki undarlegt að þeir sem næstum aldrei stíga á hjól mikli fyrir sér vegalengdir og telji það óvinnandi veg að hjóla þær. Ég segi prófið að hjóla þetta og þið munið sjá að ekki bara er þetta styttra en þið haldið þið eruð líka fljótari í förum og hafið minna fyrir því en nokkurntíman er hægt að ímynda sér. Þið sem hjólið eruð þið ekki sammála?

<> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <> <>

Síðan er skemst frá því að segja að tómatplantan hefur aftur vaxið um 3 cm á síðasta sólarhring. Og talandi um plöntur, Arnar ertu þarna ennþá? (Sjá komment á síðustu bloggfærslu).

Í dag ætla ég svo í fyrsta skipti að fara eftir hlaupaprógrammi sem ég fékk hjá Öddu. Mjög spennandi. Þetta eru ekki nema 2 km sem ég mun fara og töluvert hægar en ég er vön. Ætla samt svona í upphafi að fara alveg eftir prógramminu og sjá svo til hvort ég breyti því eitthvað eða hvort það virki vel bara eins og það er.
Eins og áður hefur komið fram þá er ég að stefna á 10 km hlaup í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar. Það eru ekki nema rétt tæpar 7 vikur í atburðinn og því kominn tími til að taka þessu alvarlega.
En ég er líka að berjast við of lítið járn í blóðinu og þrjóskast við að tala járntöflur. Mín trú er nefnilega sú að með réttu mataræði sé hægt að laga þetta og háma þess vegna í mig suðusúkkulaði, cheerios gulan og fleira sem á að vera járnríkt. Fékk mér meira að segja sardínur í gær en þær hef ég ekki getað borðað síðan silfurskottur sáust fyrst í íbúðinni hjá mér, en mér fannst ég vera að éta silfurskottur en ekki sardínur á þeim tíma.

7. júlí 2008

Plöntur og hjól

Snemma í sumar settum við niður tómatfræ úr kirsuberjatómat. Tvær plöntur komu upp, en önnur dó fljótlega eftir að hún var sett í sér pott. Hin lifir góðu lífi og það er ótrúlegt hvað hún sprettur. Í gærmorgun brá ég reglustriku á hana og þá var hún 23 cm á hæð.


Í morgun gerð ég það sama og þá er hún orðin 27 cm. Hefur hækkað um 4 cm á einum sólarhring. Það kalla ég bara nokkuð gott, en hinsvegar er spurning hversu lengi hún kemst fyrir hjá okkur með þessu áframhaldi.








Svo er það þannig að við erum með tvö barnahjól sem við viljum gjarnan koma frá okkur. Þau eru bæði á 24 tommu dekkjum en stellin eru mis stór. Nú veit ég ekki hvernig stellstærð er mæld svo ég mældi frá jörðu upp á stýri og á Trek hjólinu er hæðin 34 tommur og 36 tommur á því græna.
Þau þarfnast bæði viðhalds þar sem þau hafa staðið óhreyfð í nokkurn tíma og voru úti í allan vetur. Láttu mig vita ef þú hefur áhuga.

3. júlí 2008

Íþróttafréttir

Á þriðjudaginn var 1. júlí 2008 var á Rás 1 viðtal við mann að nafni Hrafnkell í þættinum Dr. Rúv. Var hann spurður að því hvers vegna ekki væri sýnt meira af íþróttum s.s. skautadansi, dýfingum, fimleikum ofl. slíku í fréttaþáttum sjónvarps.
Svörin voru óskýr og ég fékk á tilfinninguna að ástæða væri sú að þeir sem kaupa inn efnið finnist þetta ekki vera áhugavert.

Þetta vakti mig til umhugsunar. Því þannig er að íþróttafréttir eins og þær eru í dag eru fréttir sem ég forðast af því þar er ekki efni sem höfðar til mín á nokkurn hátt. Boltaíþróttir finnst mér ekki skemmtilegt að horfa á (hvort sem það er karla eða kvennalið) en þær fá stærstan hluta af fréttunum. Síðan kemur golf, bílaíþróttir (einnig leiðinlegt) og stundum tennis eða sund (allt í lagi, getur verið gaman að horfa á).
Eins er með dagblöðin. Þau eru nú flest farin að hafa sérblað með þessum fréttum svo auðvelt er að hoppa yfir þær fréttir og það er einmitt það sem ég geri.

Og nú velti ég fyrir mér. Er þetta ekki óplægður akur? Það gæti komið mér til að horfa á íþróttafréttir ef myndir af skautadansi, dýfingum eða fimleikum væru sýndar oftar. Ég er ekki að biðja um beinar útsendingar (ekki viss um að ég gæfi mér tíma í að horfa á það) heldur frekar sýnishorn af því sem er að gerast. Er það ekki hagur íþróttafrétta að sem flestir horfi á þær?

1. júlí 2008

Hjólafréttir



Þetta er uppáhalds leiðin mín í og úr vinnu þessa dagana (myndir fengnar úr Borgarvefsjá). Stígakerfið meðfram Sæbrautinni er orðið nokkuð gott og ekki mikil umferð annarra en hjólandi a.m.k. helming leiðarinnar.

Og hér kemur smá af tölum sem ég tileinka Ingu vinkonu. Leiðin er tæpir 7 km (allt í allt en öll leiðin sem ég fer er ekki á kortinu) og ég er u.þ.b. 20 mín að hjóla hana. Meðalhraði 20 km/klst og hámarkshraðinn rétt rúmlega 30 km/klst.

Hinsvegar er leiðin ekki gallalaus. Og gulu punktarnir á fyrstu myndinni sýna staði sem ég kalla stundum þrautabrautir. Það eru aðallega staðir þar sem maður fer yfir götur. Ég hef númerað þá og ætla að koma mínum kvörtunum á framfræri í númera röð.

1. Hér kem ég niður frá Skeiðarvoginum og er beygjan inn á stíginn við Sæbraut ansi kröpp og blind. Þ.e. ekki auðvelt að sjá hvort einhver er að koma eftir stígnum. Það eru nokkrir svona blindir staði milli punkta 1 og 2. Marga þeirra væri auðvelt að laga með því að klippa gróðurinn (spurning hvort maður eigi að taka trjáklippur með sér einn morguninn). Svo er einn staður milli punkta 1 og 2 þar sem húsagata fer yfir stíginn og endar hinumegin við hann. Þetta er augljóslega varasamt því á þessum kafla er maður á góðum hraða og ef bíll er að aka inn í botninn á götunni á sama tíma og ég kem á fullri ferð... gæti orðið ljótt.

2. Sannkölluð þrautabraut. Grænu punktarnir sýna leiðina sem ég verð að fara til að komast milli stíga því hérna endar stígurinn og annar tekur við hinumegin við Sæbrautina.

Það eru gönguljós allan hringinn á þessum gatnamótum og leðinlegast er að fara yfir Sæbrautina sjálfa því ljósin eru tvískipt og virka þannig að það er engin leið að komast yfir báðahelmingana á sömu ljósum. Það verður ansi oft til þess að maður fer yfir á móti rauðum kalli og það pirrar mig að þurfa að grípa til lögbrota svona snemma morguns.

Nú tekur við ágætis kafli. Það eina er að verið er að byggja á einum stað en búin hefu verið til ágætis varaleið framhjá sem tefur ekki mikið, þó ekki sé nokkur leið til að mæta öðrum þar, hvorki hjólandi eða gangandi.

3. Hér er beygja að bensínstöð og er umkvörtunarefni mitt svegjan sem kemur á stíginn. Ég skil að ætlast er til að við hægjum á ferðinni þegar kemur að svona stöðum en það er einum of að senda mann í hvarf frá götunni plús að umferðin er aðeins úr einni átt og ætti því að vera viðráðanlegri að fylgjast með fyrir okkur stígafólkið. Kantsteinninn er helst til of hár þarna til að fara niður af honum beint, eins og maður gerir stundum við svipaðar aðstæður.


4. Of miklar sveigjur á brautinni yfir götuna og sérstaklega þegar komið er yfir götuna og á stíginn aftur, hef 2x næstum farið út fyrir stíginn sem er ekki gott þarna þar sem nokkuð hár kantur er og almennt frekar varasamt.
5. Sama og 4.

Milli punkta 5 og 6 er fínt að hjóla. Þarna hefur þó umferð um stíginn aukist og þá sérstaklega gangandi /skokkandi vegfarenda. Það getur verið varasamt. Stígurinn er tvískiptur þ.e. lína skilur að hjólahluta og gangandihluta. En mikið hefur verið skrifað um gallan við það kerfi svo ég læt það vera. Nema að það virðist vera tilhneging hjá gangandi /skokkandi að vera alveg við þessa umræddu línu sem minnkar hjólasvæðið (sem er ekki of mikið fyrir) og getur verið stórhættulegt.

6. Sólfarið. Inn á myndina setti ég bleika línu (vona að hún sjáist) sem er beintenging milli hjólalínanna. Þarna er hjólabrautin klippt af til að koma fyrir stæðum. Fyrir utan þá hættu sem það getur skapað ef hjólreiðamaður er ekki með athyglina algjörlega við stíginn og passar sig að færa sig inn á "gangadi" hlutann af stígnum til að steypast ekki fram af kantinum þá er þarna líka minnkað svæðið sem umferð kemst um. Einmitt þar sem hópar fólks á það til að vera að skoða listaverkið. Og fólk í hópum er að gera allt annað en að fylgjast með því hvort einhverjir þurfi að komast framhjá. Þessi litli bútur getur því verið mikil hindrun og töf fyrir þann sem vill komast heim (því það eru sjaldan hópar þarna fyrir kl 8 á morgnana).
Það þyrfti frekar að auka gangstéttaplássið þarna heldur en að minnka það eins og gert er.
En á heildina litið er þessi leið nokkuð góð, bæði skemmtileg og falleg. Hún er einnig ein sú öruggasta af þeim sem ég get valið úr og með fæstum hindrunum.

26. júní 2008

Sumarkveðja.

Sæl og blessuð öll sömul.

Frá mér er allt gott að frétta þó dagarnir séu helst til of stuttir nú um stundir. Það er svo margt sem mann langar að gera og annað sem þarf að gera og eilíf togstreita þar á milli. Eins og þið þekkið.

Við erum öll meira og minna í vinnunni þessa dagana og fáum ekki frí saman fyrr en í lok júlí, en þá verður gaman.

Garðurinn okkar er mjög svo blómlegur núna því í gær plöntuðum við Hrund út fullt af sumarblómum sem okkur áskotnaðist. Sum eru meiri dekurblóm en önnur og þurfa vökvun næstum því á hverjum degi. Vonandi getum við sinnt þeim sem skildi.

Eplatrén sem við settum út í garð (í potti) í vor af því þau voru farin að ofspretta í glugganum hafa séð fífil sinn fegri. Þau eru núna eiginlega bara stönglar með nokkrum laufblöðum efst.

Af paprikutrjám er allt gott að frétta. Þau halda áfram að blómstra og nú eru 3 paprikur að vaxa. Við höfum nú þegar uppskorið 2 paprikur, ágætlega stórar og mjög svo ljúffengar.

Síðan hafa stelpurnar verið að setja inn myndir á myndasamkeppni mbl.is. Þetta eru Eyrúnar myndir og hér eru myndir frá Hrund (smellið á nöfnin þeirra).

Eyrún er komin með nýtt hjól og stefnt er á að hjóla eitthvað saman öll fjölskyldan þó ekki sé búið að ákveða hvert eða hvenær.

Sem sagt allt í lukkunnar velstandi hjá mér og mínum.

Kveðja, Bjarney

15. júní 2008

7 km labb, skokk og hjól.

Ég og Hrund fórum í gær að heiman, Hrund hjólandi og ég á tveimur jafnfljótum. Stefnan var á Kópavoginn.






Bláa línan sýnir hraða.

Græna línan sýnir hvort farið er upp eða niður í landslaginu (eða elevation) í metrum talið en þar sem ég tók ekki með mælistikuna fyrir þá línu segir hún kannski ekki mikið.

Fyrstu 3 km fór ég á góðu og jöfnu skokki sem sést svo fallega á línuritinu hinu fyrra en ég klippti í sundur línuritið til að það sæist betur.

Veðrið var mjög gott til hreyfinga, enn nokkuð skýjað og léttur vindur. Fljótlega eftir þessa 3 km fórum við Hrund að prófa nýjar leiðir. Stundum er gaman að fara ókannaðar slóðir (þá á ég við slóðir sem ég hef ekki sjálf farið) og við ákváðum að fara til vinstri í stað hægri þar sem stígurinn í Fossvogi greinist.
Þá vorum við komnar á þennan líka fallega skógarstíg, sem því miður endaði í uppgreftri og vinnusvæði. Svo við fórum aðeins til baka (höfðum séð ótrúlega girnilega brú örlítið fyrr sem leiddi lengra inn í skógarsvæðið) og héldum ferð okkar áfram um ókannaðar slóðir. Sá stígur endaði sem mjög þröngur slóði og við lyftum hjólinu yfir hlið (sem kom aðeins seinna í ljós að var óþarfi) til að komast út á Kringlumýrarbrautina.
Síðan vorum við svo bjartsýnar að telja að við kæmumst í gegnum vinnusvæðið þar sem verið er að búa til nýjan veg hjá Lundi, en það reyndist blindgata og enn og aftur snérum við við.
Það er ástæðan fyrir því hversu upp og niður seinni helmingurinn af ferðinni er.
En ferðalagið var mjög skemmtilegt.
Í lokin má sjá hækkunina við það að fara inn í Kópavoginn og upp á hálsinn að listasafninu og síðan lækknunina aftur á áfangastað.

11. júní 2008

Nýr linkur

Var að skrá mig á síðu sem heitir hlaup.is (nýr linkur hér við hliðina).

Hér skráir maður inn þá hreyfingu sem maður stundar og hlaup.is heldur utan um heildartölur og annað skemmtilegt. Verið ófeimin að kíkja á síðuna.

Þar er líka hægt að sjá hvað aðrir eru að gera. Virkar voða sniðugt.

7. júní 2008

Kvennahlaupið


Í grenjandi rigningu í Garðabæ á Garðatorgi var lagt af stað í kvennahlaupið kl. 14 í dag. Þær allra duglegustu lögðu af stað korteri fyrr í 10 km hlaupið.

Ég sjálf hljóp 5 km en Eyrún og mamma fóru 2 km. Hrund gat ekki tekið þátt því strax eftir upphitunina fór hjartað hennar af stað í oftakt sem er vandamál sem hún hefur þurft að glíma við. Hún er á töflum sem eiga að koma í veg fyrir þetta, en þær virka bara ekki alltaf.

Það var góð stemning á staðnum þrátt fyrir bleytuna. Á vef Sjóva má sjá myndir frá hlaupunum víða um land. Því miður engin mynd af mér og mínu fólki.

Og þá koma staðreyndirnar. Hlaupaleiðin mín var nokkuð strembin að mínu mati. Brekkur bæði upp og niður. Ég var 33 mín. og 44 sek. að fara leiðina og er bara nokkuð sátt við það.
Myndin sýnir hvernig nýja fína tækið mitt teiknar upp hlaupið. Uppi er leiðin sem hlaupin var. Blágræni punkturinn sýnir u.þ.b. upphaf hlaupsins sem svo endar á sömu götu og niður í krókinn. Línuritið sýnir svo hraðann.
Meðalhraðinn hjá mér var 8.7 km/klst. Hámarkshraðinn 13,2 km/klst.
Virkilega skemmtilegt að taka þátt í þessu þrátt fyrir rigninguna. Við vorum holdvotar eftir hlaupið þrátt fyrir regnfötin því manni hitnar við hlaupið og þá verður að renna frá. Ég var líka í lopapeysunni minni svo mér varð ansi heitt.

4. júní 2008

Villtar jurtir

Fór í gær á einstaklega áhugavert námskeið um villtar jurtir og nýtingu þeirra. Það var Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum sem bauð upp á námskeiðið. Við fórum þrjár saman ég, mamma og Minna frækna og í Keflavíkinni var Hildur móðursystir ein af þeim sem kom þessu námskeiði á koppinn.

Í upphafi hélt grasalæknir fyrirlestur um hinar og þessar jurtir og hvaða virkni þær hafa og hvernig best sé að meðhöndla þær.
Síðan var stigið upp í rútu og ekið um Suðurnesin og stoppað á 3 stöðum og jurtir skoðaðar og tíndar. Við vorum helst til of snemma á ferðinni fyrir sumar plöntur í það minnsta en fundum þó margar mjög fallegar og kröftugar plöntur.
Á eftir hvert stopp voru jurtir settar í hitabrúsa með heitu vatni í til að úbúa te sem var drukkið í lok ferðarinna.

Ég og mamma vorum með brúsa og í hann settum við lauf af túnfífli, haugarfa, maríustakk, vallhumal og eitthvað fleira og úr því varð þetta líka ljómandi góða te sem án efa hefur gert okkur mikið gott.

Þegar heim var komið breiddi ég úr þeim plöntum sem ég átti til á handklæði inni í eldhúsi til þurrkunar. Þá hef ég mestan áhuga á brenninetlunni því hún á að vera svo góð fyrir blóðið (bæði hreinsandi og aukandi). En brenninetluna verður að þurrka áður en hægt er að neyta hennar. Svo er hún víst frekar römm á bragðið svo best er að hafa fleiri jurtir með í teinu.

Þetta finnst mér allt saman vera ákaflega spennandi og skemmtilegt. Læt svo fylgja hér með tvær heimasíður sem Hildur móðursystir benti á og eru svona ansi skemmtilegar og fróðlegar.

Viskubrunnur - Galdralýsingar á Ströndum
Náttúra

29. maí 2008

Græjur

Skokkaði í morgun 4,45 km í vinnuna og var 31 mín 50 sek og 89 sekúndubrot að því.
Við þessa hreyfingu eyddi ég upp 353 kaloríum.
Hámarks hraðinn hjá mér var 15,8 km/klst en meðalhraðinn 8,4 km/klst.

Já, ég er búin að kaupa mér nýja og flotta græju sem heldur utan um alla mína hreyfingu af nokkuð mikilli nákvæmni. Græjan heitir Garmin Forerunner 205 og er á stærð við stórt armbandsúr. Hún tengir sig við gervihnött áður en lagt er af stað (helsti gallinn hvað hún er lengi að því og mér þykir leiðinlegt að bíða, er ca. 1 mín að ná sambandi).

Svo þegar ég kem heim (og það er það flottasta) þá hleð ég upplýsingunum inn í tölvuna mína og þá get ég farið nákæmlega yfir ferðalagið mitt. Séð hversu hratt ég fór á hverjum stað, séð hvort ég fór upp eða niður brekku og hversu brött hún var (á þó eftir að læra betur á að lesa úr þessum línum öllum saman).
Ps. Er ekkert sérlega bjartsýn í dag á að ná að hlaupa 10 km í ágúst. Finnst það sem ég hljóp í morgun vera nokkuð langt og sé mig ekki hlaupa þá vegalengd 2x í einu lagi.

22. maí 2008

Hjólafréttir

Enn er ágætis hjólaveður, þó verið sé að spá einhverri vætu í dag.
Fór Sæbrautina og þar var ágætis meðvindur.
Sást til 5 annara hjólamanna, allt karlmenn.
Hvað varð um kvenfólkið?
Gufar það upp þegar sólin hverfur bak við ský?

Íslenski fjallahjólaklúbburinn auglýsir hjólaferð um helgina. Hjólað verður á Nesjavelli, lagt af stað á laugardag og gist um nóttina og síðan hjólað aftur til Reykjavíkur á sunnudeginum. Hljómar mjög spennandi. Smelltu hér til að fá nánari upplýsingar.
Ég gæti vel hugsað mér að fara svona ferð en vildi gjarnan hafa einhvern með mér. Svo, þó ég ætli ekki í ár, þá ef einhver gæti hugsað sér að fara með mér á næsta ári...

19. maí 2008

Hjólafréttir

Fínasta hjólaveður í morgun 10 stiga hiti og meðvindur.

Sást til 18 annara hjólreiðamanna.

18. maí 2008

Þæfing



Mig hefur lengi langað til að prófa að þæfa ull og lét þann draum rætast þessa helgi. Ég átti plötulopa og notaði stærstu prjónana sem ég á. Síðan teiknaði ég upp einfalda tösku, setti á hana smá munstur og hóf prjónaskapinn.

Myndirnar sýna töskuna fyrir og eftir þæfingu (þ.e. þvott á 40°C).



Ég er bara nokkuð sátt við útkomuna. En þó er eitt vandamál sem þarf að finna út úr og það er að taskan "límdist" saman að innan. Ég náði henni í sundur með því að toga og rífa, en ætli það sé hægt að koma henni úr þæfingunni án þess að lenda í því vandamáli?

Er einhver þarna úti sem vill deila með mér eigin reynslu?

15. maí 2008

"Litlu vitlausu laukarnir mínir"


Eru ekki lengur litlir og vissu greinilega hvað þeir voru að gera.
Til samanburðar má sjá mynd frá 6. mars með því að smella hér.
(Aftur 14 hjólreiðamenn og meirihlutinn kvenkyns - áfram stelpur!)

14. maí 2008

Hjólafréttir

Nú er átakið "Hjólað í vinnuna" í fullum gangi. Þátttakendur eru með eindæmum heppnir með veður, enda sést það á fjölda hjólreiðamanna þessa dagana. Í morgun sá ég hvorki fleiri né færri en 14 hjólara, fyrra met á þessu vori eru 8 svo það er mikil fjölgun (og þá er einungis átt við morgunumferð það eru miklu fleiri á ferli seinni part dags).

Það er vert að ítreka fyrir mönnum að á Íslandi gildir hægri umferð, líka á göngustígum.

Ég er ekki þáttakandi í átakinu í ár, þó ég hjóli í vinnuna á hverjum degi. Pínu skrítið en svona er það nú samt. Og ekki nóg með það heldur er mælitækið mitt á hjólinu eitthvað bilað (grunar að rafhlaðan sé orðin léleg) og það er hætt að segja mér hvursu hratt ég fer og hvað langt. Verð að koma því í lag sem fyrst því ég hef svo gaman að tölulegum upplýsingum.

7. maí 2008

Athugasemdir (comment)

Ég skal viðurkenna það að mér þykir óskaplega gaman að fá athugasemdir við bloggið mitt og bíð spennt eftir hverja nýja færslu að einhver skrifi.

En hvernig er maður með að skrifa á önnur blogg?
Það er æði misjafnt. Eins er mjög miserfitt að láta sér detta eitthvað í hug til að setja við hjá öðrum. Svo er það líka þannig að maður skrifar ekki á blogg hjá hverjum sem er. Það eru þónokkrir skrifarar sem ég hef á skoðunarlistanum mínum, en ekki nema í mesta lagi helmingur sem ég mun nokkurntíman koma til með að skrifa hjá.
En af hverju ætli það sé? Nú er vitað að bloggið er fyrir alla til að lesa sem detta inn á síðuna og maður veit vel að af og til slæðast inn einhverjir sem eru utan nánustu fjölskyldu og vina, eins og maður sjálfur fer inn á hinar og þessar síður. Af hverju kvittar maður ekki fyrir innlitið, sérstaklega þegar skrifin eru skemmtileg og áhugaverð?

Eru þetta enn ein af þessum óskrifuðu lögum?

Ég a.m.k. skrifa bara á blogg hjá þeim sem vita að ég skoða síðurnar þeirra og þeir sem skrifa á mína síðu eru þeir sem ég veit að kíkja á mína síðu. Ég hef bara einu sinni fengið kommennt frá utanaðkomandi og þá var það útlendingur sem enganvegin skildi það sem ég var að skrifa um, en var að safna sér bloggvinum héðan og þaðan úr heiminum.

Hvernig er það með ykkur? Skrifið þið athugasemdir hjá fólki sem þið þekkið ekki?

30. apríl 2008

Hlaupafréttir

Á síðasta ári var skorað á mig að taka þátt í 10km hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu í ár.

Ég tók áskoruninni og er núna að undirbúa mig undir hlaupið með því að hlaupa heim úr vinnunni. Í gær skildi ég hjólið eftir í vinnunni og skokkaði/labbaði heim. Gekk betur núna en í fyrsta skiptið sem ég gerði þetta og ég var í 35 mín á leiðinni 4,5 km (sem gera 7,7 km/klst).

Í morgun skokk-labbaði ég svo aftur í vinnuna. Það er ótrúlegt hvað þolið kemur fljótt því núna var það ekki mæðin sem háði mér heldur þreyta í fótunum (þeir greinilega ekki búnir að jafna sig eftir gærdaginn).

En það sem pirrar mig mest við þetta allt saman er hversu hrikaleg rauð ég verð í framan. Tók tímann í gær eftir að ég kom heim hversu lengi andlitið er að ná eðlilegum húðlit aftur. Eftir 1 klst var næstum eðlilegum húðlit náð en þó var enn roði í kinnum. Það tók allt í allt 1 og hálfa klst þar til ekki var lengur hægt að sjá rautt.

Ætli þetta lagist með þjálfun? Eða er þetta bara eitthvað sem maður verður að lifa við?

28. apríl 2008

Rykmaurar

Að gefnu tilefni finnst mér ástæða til að birta þessa grein sem er að finna á heimasíðu asma- og ofnæmisfélagsins.


"Rykmaurar á Íslandi
Snemma á níunda áratug síðustu aldar fóru fram rannsóknir á heysjúkdómum bænda hér á landi. Í aðdraganda þeirra rannsókna voru m.a. athugaðir hugsanlegir ofnæmisvakar í heyryki. Þá fundust einar 19 tegundir heymaura; sumar hverjar í miklu magni (13). Má gera því skóna að heymaurarnir hafi borist hingað til lands með heyi sem landnámsmenn fluttu með sér til að fóðra búpeninginn á leiðinni yfir hafið. Einnig kom í ljós að heymaurarnir voru aðal ofnæmisvaldar í sveitunum (14). Heymaurar eru náskyldir rykmaurum og ofnæmi fyrir einum þeirra, Lepidoglyphus destructor, hefur talsvert verið kannað í Reykjavík og nágrenni (15). Ofnæmi fyrir þessum heymaurum er miklu algengara en ofnæmi fyrir rykmaurum meðal sveitafólks en þetta snýst alveg við í þéttbýli (14,15).
Á síðastliðnu ári fór fram mjög víðtæk rannsókn á heimilum á Reykjavíkursvæðinu í þeim tilgangi m. a. að athuga hvaða rykmaurar væru þar og í hvað miklu magni (16). Óhætt er að segja að niðurstöðurnar komu verulega á óvart. Í rúmum 210 einstaklinga fundust samanlagt 2 rykmaura. Það hefði mátt ætla að þarna hefðu átt sér stað einhver óskiljanleg mistök, því hvergi annars staðar sem leitað hefur verið að rykmauraum hefur fundist jan lítið af þeim. En það vildi svo til að úr rúmum þessara einstaklinga voru líka tekin sýni sem rannsökuð voru fyrir mótefnavökum frá rykmaurum og það fannst heldur ekki marktækt magn af þeim"

Jarðgerð

Fyrsta "uppskeran" úr jarðgerðarkassanum okkar var tekin á laugardag. Það var ótrúlega gaman að sjá og upplifa hvernig þetta virkar. Því þó maður viti að grænmeti, kaffikorgur, lauf, hey og fleira komi til með að breytast í mold með tímanum þá er magnað að sjá það í reynd.

Við keyptum fyrri endurvinnslutunnuna í fyrra vor og var hún orðin full seinnipart sumars svo við keyptum aðra.
Það var úr fyrri tunnunni sem tekið var á laugardaginn. Þá fór ég einmitt í Garðheima og keypti sigti og fötu til verksins því enn eru greinar og svona stærri hlutir sem ekki eru að fullu jarðgerð og fengu að fara aftur efst í tunnuna.

Moldin sem við höfum búið til með þessari aðferð var dökk og falleg. Það voru hvorki meira né minna en 3 og hálf fata sem kom úr tunnunni.

Ein fatan fór í matjurtargarðinn minn og hinar í beðin. Ég mæli eindregið með því að menn komi sér upp svona tunnum það fer ekki mikið fyrir þessu og það er minni lykt af þessum tunnum en af ruslatunnunum. Svo er ekki mikil vinna við þær heldur.

25. apríl 2008

25. apríl 2008

Í dag eiga foreldrar mínir 39 ára brúðkaupsafmæli. Það er ekkert smá. Til hamingju mamma og pabbi!


En svo er hér smá plöntumont og fyrirspurn.
Fyrri myndin er tekin 23. mars sl. og þá má sjá litla papriku að myndast hægramegin á plöntunni og þar sem hún greinist er eitthvað mitt á milli þess að vera blóm og paprika að myndast.
Sú seinni er tekin í morgun (25. apríl þið afsakið hvað hún er dökk). Þar er það sem var parika að myndast orðin stór og myndarleg paprika en hin er ennþá frekar lítil. Ætli sú stærri taki upp alla næringuna frá hinni áður en hún nær út í þá grein.















Og nú langar mig að fá upplýsingar frá plöntufróðu fólki. Ætli það sé óhætt að umpotta þessari plöntu? Hún er í allt of litlum potti og ég þarf orðið að vökva hana næstum daglega til að hún ofþorni ekki.

Eplatrén mín frá í fyrra eru frekar orðin væskilslega neðri hlutinn á þeim, blöðin orðin meira eða minna sölnuð. En á toppnum eru komin ný og falleg blöð.

Til hægri á myndunum báðum er svo sítrónutré. Það vex ótrúlega hægt miðað við bæði eplatrén og paprikutrén. En þeim var öllum sáð síðasta sumar.

Og að lokum. Teljarinn minn er staddur í nr. 6959 vantar bara 41 upp í 7000. Alltaf svo gaman að nálgast svona heilar tölur. Spennandi að sjá hvursu langan tíma það tekur að komast upp í þá tölu.
Ta ta ta tammm.....

21. apríl 2008

8 hjólreiðamenn

Hjólreiðamönnum fjölgar ört á morgnana nú þegar farið er að hlýna. Sá 8 í morgun. Einn á svona skrítnu hjóli þar sem hjólreiðamaðurinn liggur á bakinu, frekar fyndið að sjá.

28. mars 2008

Hjólað í vinnuna

Hjólaði í vinnuna í fyrsta skiptið á þessu ári. Oh, það er bara svo dásamlegt að hjóla.

26. mars 2008

Reykjavíkurflugvöllur

Reykjavík síðdegis spyr á visi.is: "Á Reykjavíkurflugvöllur að víkja fyrir íbúabyggð?" og svarmöguleikarnir eru þrír:
-Já, að hluta
-Já, alveg
-Nei.

Fyrir ekki svo löngu hefði ég ekki hikað við að svara þessu "já, alveg". En það var þegar eini valmöguleikinn var að flytja hann til Keflavíkur. Nú er ég á þeirri skoðun að frekar vil ég hafa hann þarna áfram heldur en að færa hann með miklum tilkostnaði í um nokkra kílómetra, annað hvort upp á Hólmsheiði eða út á Löngusker. Báðir þeir möguleikar eru ómögulegir að mínu mati og þá er betra að hafa flugvöllinn þar sem hann er. Svo ég vil ekki svara "já, alveg" og valda þeim misskilningi að þar með sé mér alveg sama hvert hann er fluttur.

Svarmöguleikarnir hefðu mátt vera:

-Já og flytja hann til Keflavíkur
-Já og flytja hann innan Reykjavíkur
-Nei

og þá hefði ég getað svarað án vandræða.
En það er rétt að taka fram að ég fer afar sjaldan innanlands með flugi, líklegast u.þ.b. 1x á hverjum 5 árum. Og það er svo að ég fer oftar til útlanda í flugvél heldur en innanlands og finnst það ekki tiltökumál að fara til Keflavíkur til þess.

23. mars 2008

Plöntur og vor


Mikið er vorið spennandi og skemmtilegur tími.


Sólin sést oftar og maður meira að segja finnur hita frá henni. Allar pottaplöntunar eru farnar að taka við sér. Paprikuplanta frá síðasta sumri blómstraði 4 eða 5 blómum og lofar góðri uppskeru, nú eru 3 blóm eftir og 2 paprikur farnar að myndast. Ég bjóst svo sem ekki við því að þessar plöntur lifðu af veturinn en gaf þeim tækifæri. Epla trén líta ekkert allt of vel út. Blöðin hafa svolítið skrælnað í vetur (sjá vinstra megin við paprikutrét) en það verður spennandi að fylgjast með þeim og sjá hvort þau taki við sér líka.


Pottaplanta sem við höfum átt í nokkur ár og mér finnst alltaf vera eins er farin að bæta við sig nýjum öngum (sjáið þetta ljósgræna það er allt nýtt).
Síðan setti ég fullt af sumarblómafræjum í mold og bíð spennt eftir að sjá hvort og hvenær þau láta á sér kræla.

20. mars 2008

Afsláttur af heilsuþjónustu.

Kaupþing sendi okkur bækling um daginn þar sem tilkynnt er að við séum komin í "Vöxt Gull" og þar með fáum við betri þjónustu en aðrir sem ekki eru í þessum hópi. Síðan er tíundað hvað okkur er boðið uppá.

Við erum heppin að hafa fæðst á Íslandi því hér er gott að búa.
Hvers vegna? Jú, við höfum aðgang að þjónustu sem okkur finnst orðið sjálfsögð en er það ekki allstaðar í heiminum. Öll börn fara í skóla. Heilsugæslan er aðgengileg öllum og almennt höfum við það gott.
Hvers vegna? Jú það er vegna þess að við áttuðum okkur nokkuð snemma á því að það borgar sig að hugsa um heildina. Við borgum skatta af launum okkar til að fjármagna þá þjónustu sem við teljum nauðsynlega.
Ég vil halda áfram að borga skattana mína til að greiða fyrir þessa þjónustu. Ég vil að allur almenningur hafi aðgang að henni og að áfram þyki sjálfsagt að lækna þann sem er veikur án þess að hugsa um hvort viðkomandi hafi efni á að borga fyrir þjónustuna.

Þess vegna verð ég óróleg þegar tákn um annað koma fram. Og þá er ég komin aftur að bæklingnum frá Kaupþingi. Þar er mér boðin afsláttur af mánaðargjaldi af Velferðarþjónustu á vegum Heilsuverndarstöðvarinnar. Þennan afslátt fæ ég sem sagt af því ég er í þessari tilteknu þjónustu hjá bankanum mínum.

Þetta er hvorki stórvægilegt eða eitthvað sem eitt og sér grefur undan heilbrigðisþjónustunni fyrir almenning. En í mínum huga er þetta skref í þá átt að hafi maður pening geti maður greitt sig framar í röðina. Og það er skref sem ég er ekki tilbúin að taka. Þegar kemur að heilsu þá á sá veikasti að hafa forgang en ekki sá sem á mesta peninginn.

18. mars 2008

16. mars 2008



Þá hefur yngsta barnið verið fermt. Sjáið bara þennan föngulega hóp.

Hún Eyrún mín stóð sig eins og hetja í fermingarveislunni og bæði hélt smá ræður og söng fyrir gestina. Og gerði það vel.

Hjólaárið 2024 - 3.281 km

VEGALENGDIR OG DAGAFJÖLDI Hjólaði samtals 3.281 km á árinu. Hjólaði 1.689 km til og frá vinnu og 1.965 km í aðrar ferðir. Ég hjólaði 208...